Harma pólitísk réttarhöld

Mikill fjöldi fólks var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Mikill fjöldi fólks var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Stjórn Ungra vinstri grænna hefur sent frá sér ályktun þar sem dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll í morgun yfir hinum svokölluðu níumenningum, er harmaður. Þá er skorað á forseta og skrifstofustjóra Alþingis  að segja af sér þegar í stað. 

„Niðurstaða dómsins, þ.e. sakfelling fjögurra aðila úr hópnum, er áfellisdómur yfir íslensku réttarkerfi. Réttarhöldin voru pólitísk og hefðu aldrei átt að fara fram, hvað þá að ganga svo langt að enda með dómi," segir í ályktuninni.

Skorar stjórn UVG á innanríkisráðherra að sýna í verki að stjórnvöldum standi ekki á sama um að réttarkerfinu sé beitt í pólitískum tilgangi. Það geri hann best með því að hafa  frumkvæði að því að forseti Íslands veiti þeim sem dæmd voru þegar í stað almenna uppgjöf saka.

Stjórn UVG lýsir ennfremur yfir áhyggjum af því að réttarhöldin og niðurstaða þeirra verði til þess að þrengja rétt fólks til mótmæla og beita andófi gegn yfirvöldum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert