Skorar á forsetann

Einar Már Guðmundsson rithöfundur.
Einar Már Guðmundsson rithöfundur. Eggert Jóhannesson

Einar Már Guðmundsson rithöfundur skorar á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að standa við orð sín og synja nýja Icesave-samningnum staðfestingar. Einar Már kveðst vera í hópi þeirra sem „endurheimtu“ forsetann þegar hann synjaði síðasta samningi staðfestingar.

Einar er nú á upplestrarferð í Danmörku en gaf sér tíma þegar mbl.is náði tali af honum fyrir stundu. Rithöfundurinn dró þá blað úr vasa sínum og las tilvitnun í nýlegt viðtal við forsetann. Tilvitnun hefst: „Hversu langt er hægt að ganga og fara fram á að venjulegt fólk, bændur, sjómenn, læknar og hjúkrunarfræðingar, axli ábyrgð á föllnu bönkunum. Sú spurning, sem er kjarninn í Icesave-málinu, mun brenna á mörgum í ríkjum Evrópu.“

Einar Már segir forsetann hafa hitt naglann á höfuðið.

„Þetta er kjarni málsins, enda fannst mörgum Íslendingum sem þeir hefðu endurheimt forsetann þegar hann hafnaði lögunum, að þá hefði hann vaknað eftir allt of langt faðmlag sitt við auðmennina. Ég var í þessum hópi.

Málið snýst um lýðræði, að þjóðin fái sjálf að ákveða þetta. Ég fæ ekki séð að það geti skaðað nokkurt mál að almenningur fái að taka afstöðu til þess,“ segir Einar Már.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert