Íbúar ekki hressir með Goðafoss

Eins og sjá má er Goðafoss mjög nærri fjörunni í …
Eins og sjá má er Goðafoss mjög nærri fjörunni í Oslóarfirði. mynd/Guðjón Ólafsson

„Skipið er þarna um hundrað metra frá fjörunni og liggur nánast ofan á jarðgöngum undir fjörðinn,“ segir Guðjón Ólafsson, Íslendingur sem búsettur er í Fredrikstad í Noregi, um skipið Goðafoss. Hann segir íbúa á svæðinu ekki hressa með ástandið.

„Ég fór þarna niður í fjöru í dag að skoða. Það var fullt af fólki að fylgjast með,“ segir Guðjón en hann segir að myndir af fuglum sem hafi drepist í olíu frá skipinu hafi birst í norskum fjölmiðlum.

Skipið liggi nánast ofan á neðansjávarjarðgöngum sem liggi undir Oslóarfjörð yfir á Skjærhalden þar sem sé mikil sumarhúsabyggð milljónamæringa frá Osló.

„Fólk er ekkert voðalega hresst með þetta. Það undrast hvernig þetta getur gerst og líka það að hafnsögumaðurinn hafi farið snemma. Það er mjög þröngt þarna og það er mjög krítískt mál núna í fjölmiðlum,“ segir Guðjón en hafnsögumennirnir séu vanir að fylgja skipunum lengra út fjörðinn.

Talið er að það kunni að taka marga mánuði að hreinsa alla olíuna, sem lak úr Goðafossi, úr sjónum og af ströndum Óslófjarðar. Fuglaáhugamenn á Hvaler hafa miklar áhyggjur af ástandinu og segja við norska útvarpið í dag, að gera verði kröfur til stjórnvalda um að strangari reglur verði settar um skipaumferð   á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert