Blaðamannafundur á Bessastöðum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur boðað blaðamenn á sinn …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur boðað blaðamenn á sinn fund á Bessastöðum í dag. mbl.is

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, boðaði rétt í þessu til blaðamannafundar á Bessastöðum klukkan 15 í dag og mun þar, skv. heimildum mbl.is, tilkynna niðurstöðu sína í Icesave málinu.

Alþingi samþykkti á miðvikudag lög um að fjármálaráðherra fái heimild til að staðfesta samninga, sem gerðir voru í desember við Breta og Hollendinga um Icesave-málið. Forsetinn fékk frumvarpið til staðfestingar þá um kvöldið.

Aðstandendur vefsíðunnar kjosum.is afhentu forseta Íslands á föstudag lista með nöfnum 37.488 Íslendinga sem skrifað höfðu undir yfirlýsingu þar sem forsetinn er hvattur til þess að synja lögunum staðfestingar, og vísa þeim þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Í morgun höfðu rúmlega 42.000 manns skrifað undir yfirlýsinguna á vefnum. 

Ólafur Ragnar lýsti því yfir á föstudag að málið væri erfitt og flókið. Alþingi hafi fjallað um málið vikum og mánuðum saman, og því væri eðlilegt að hann taki sér nokkurra daga umþóttunartíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert