Vonsvikinn og undrandi

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fréttamenn nú …
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fréttamenn nú síðdegis. mbl.is/hag

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna segir ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að neita Icesave-frumvarpinu staðfestingar vera undrunarefni. „Ég verð að segja að þetta kom mér á óvart. Ég er vonsvikinn og vægast sagt undrandi,“ sagði Steingrímur í samtali við mbl.is

„Ég tala fyrst og fremst sem þingmaður á Alþingi Íslendinga, ég hef verið þingmaður í þingræðisskipan í tæp 28 ár. Hér hefur verið þingræði og á mann leita ýmsar stríðar hugsanir þegar þetta gerist eftir að Alþingi samþykki lög með meira en tveimur þriðju greiddra atkvæða,“ sagði Steingrímur.

Hann segir lögin öðlast gildi á næstu dögum, þrátt fyrir að forseti hafi ekki staðfest þau.  Þau gilda fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni og falla þá annaðhvort úr gildi eða fá varanlegt gildi.

Hver gætu hugsanleg áhrif þessa orðið á stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu?

„Ég held að það væri nær að spyrja forsetann að því en mig. Ég vil fara varlega í yfirlýsingar. En við gerum það sem við getum til að lágmarka áhrifin. Þetta ræðst að miklu leyti af viðbrögðum gagnaðilanna. En það er enginn vafi á að þetta dregur upp ákveðna óvissumynd af ástandi hér á landi og eykur enn á vafasemdir umheimsins um að íslensk stjórnskipan ráði við að leiða til lykta mál af þessu tagi.“

„Forsenda þess að gagnaðilarnir fengust til viðræðna á nýjan leik var að það væri breið pólitísk samstaða á bak við málið þannig að hægt yrði að afgreiða það fljótt og vel.  Við urðum við þessu með því að búa til samninganefnd sem allir stjórnmálaflokkarnir stóðu að. En við skulum vona að þessi sund séu ekki öll lokuð.“

Steingrímur segist ekki hafa rætt við Breta og Hollendinga eftir að forsetinn opinberaði ákvörðun sína.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert