Sænsk gagnrýni á forsetann

Ólafur Ragnar tilkynnir um ákvörðun sína á Bessastöðum í gær.
Ólafur Ragnar tilkynnir um ákvörðun sína á Bessastöðum í gær. mbl.is/Golli

Dálkahöfundur Svenska Dagbladet í Svíþjóð gagnrýnir í dag Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, harðlega fyrir að synja lögunum um Icesave-samninginn staðfestingar.

Olle Zachrison, sem er fréttastjóri viðskiptafrétta blaðsins, segir að Ólafur Ragnar hafi nú í annað skipti valdið mikilli óvissu á Íslandi með því að neita að staðfesta lögin og ákvörðun hans sé ekki sæmandi þjóðhöfðingja í þingbundnu lýðræðisríki.

Zachrison segir, að í fyrra hafi yfir 90% Íslendinga hafnað Icesave-samningnum sem þá lá fyrir. Mörgum hafi þótt að vextirnir allt of háir og einnig hafi margir talið og telji enn, að íslenskir skattgreiðendur eigi ekki að bera ábyrgð á gerðum gráðugra bankamanna.

Vandamálið sé, að önnur ríki og alþjóðasamtök, þar á meðal Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, séu annarrar skoðanir. Íslenska ríkisstjórnin hafi gert sér grein fyrir því og tekist að ná nýjum mun hagstæðari samningi. Þingið hafi samþykkt samninginn með miklum meirihluta. En þar sem Ólafur Ragnar Grímsson líti á sig sem einn eina sanna túlkanda þjóðarviljans hafi hann enn á ný vísað samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og segi Íslendingar nei gætu afleiðingarnar orðið  örlagaríkar.

Vissulega geti þjóðaratkvæðagreiðslur verið nauðsynlegar, svo sem um hugsanlega ESB-aðild. En það sé sjaldan heppilegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um skatta  eða aðrar fjárskuldbindingar, því þegar spurt sé: viltu borga?, sé hið eðlislæga svar næstum alltaf: nei. Þess vegna eigi kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, þing og ríkisstjórn, að taka slíkar ákvarðanir.

„Ólafur Ragnar Grímsson hefur þó ein sterk rök sín megin. Hefði hann ekki stöðvað fyrri samninginn hefði niðurstaðan orðið verri en sú sem fékkst þegar samið var aftur. Vandamálið er að þetta bragð gengur bara einu sinni. Það ætti forsetinn að skilja og því ætti hann að draga ákvörðun sína til baka," segir Zachrison. 

Svenska Dagbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert