Líklegast að Icesave færi fyrir EFTA-dómstólinn

Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands.

Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segist telja líklegast að ef Icesave-samningarnir verði felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu, muni Eftirlitsstofnun EFTA fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn til að fá skorið úr greiðsluskyldu íslenska ríkisins.

Björg sagði að það væru ýmsir möguleikar í stöðunni ef Icesave-samningarnir yrðu felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Málið gæti farið fyrir EFTA-dómstólinn, en það er líka hægt að hugsa sér að Bretar og Hollendingar myndu sækja endurgreiðslu fyrir íslenskum dómstólum. Fræðilega séð væri einnig sá möguleiki fyrir hendi að þjóðirnar myndi semja um lögsögu alþjóðlega dómstólsins í Haag og síðan er hægt að búa til gerðardóm.“

Þar sem málið snýst um að Bretar og Hollendingar fái greitt kröfur sem mynduðust vegna Icesave-reikninganna yrði það þeirra að sækja málið, ef þeir myndu vilja fara þá leið að höfða dómsmál.  „Ef þeir ætla að fá niðurstöðu í tilteknu ágreiningsmáli þá stendur þeim opið að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum og krefjast endurgreiðslu, en það sem ég teldi líklegra er að ef málið er komið í farveg hjá Eftirlitsstofnun EFTA þá getur það endað með því að stofnunin fari með málið fyrir EFTA-dómstólinn. Þar yrði engin bein aðild Breta eða Hollendinga að málinu heldur yrði bara skorið úr um greiðsluskyldu ríkisins.“

Ekki er heldur útilokað að málið færi fyrir EFTA-dómstólinn þó að Bretar og Hollendingar færu í dómsmál hér á landi. Lögmaður þeirra gæti óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Það yrði dómarans að ákveða hvort orðið yrði við þeirri kröfu.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið með Icesave-málið til skoðunar og er búin að senda fyrirspurn um málið til íslenskra stjórnvalda. Málið er hins vegar í biðstöðu hjá stofnuninni meðan beðið er eftir hvort samningar milli Íslands og Breta og Hollendinga verða samþykktir.

Björg sagði að ef málið færi fyrir EFTA-dómstólinn og niðurstaða dómstólsins yrði á þann veg að á Íslandi hvíldi greiðsluskylda þá lægi fyrir staðfesting á lagalegri skyldu Íslendinga og í framhaldinu þyrftum við að semja við þær þjóðir um hvernig við ættu að greiða kröfuna. „Þá þarf að semja um greiðslutíma, vexti og annað. Þá er staða okkar auðvitað talsvert veikari því þá er búið að úrskurða um greiðsluskylduna.“

Ágreiningur Íslands við Breta og Hollendinga snýst um túlkun tilskipunar ESB um innlánatryggingakerfi og hvort íslenska ríkinu beri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. 

Dr. Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins, sagði þegar hann kom í heimsókn til Íslands fyrir nokkrum misserum að ef kæmi til þess að mál yrði höfðað vegna Icesave-samningsins með aðkomu EFTA-dómstólsins væri ljóst að málið yrði það umfangsmesta sem komið hefði til kasta hans. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að Icesave-samkomulagið væri einstakt enda væri þar á ferð áhugaverð blanda af lögfræði og stjórnmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert