Óviðunandi ábyrgðarleysi forsetans

Icesave.
Icesave. Morgunblaðið/Ómar

Starfsgreinasambandið telur ákvörðun forseta Íslands að vísa Icesave-lagafrumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslu óviðunandi ábyrgðarleysi. Í frétt á vefsvæði sambandsins segir m.a. að atvinnuleysi sé enn óviðunandi með öllu og óvíst hver þróunin verði „ef Icesave á enn að hanga yfir okkur eins og bölský.“

Á vefsvæðinu segir að Starfsgreinasambandið hafi lengi verið þeirrar skoðunar að ljúka þurfi Icesave-málinu og að dráttur á því hafi skaðað endurreisn efnahagslífsins. „Það er rangt að ,,ekkert hafi gerst” þegar fyrri Icesave-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skuldatryggingarálag hækkaði og hefur verið óviðunandi síðan. Og enn hefur það svo  hækkað síðustu tvo daga eftir yfirlýsingu forsetans. Lánshæfismat Íslands hefur að sama skapi minnkað.“

Þá segir að samningarnir séu ávextir þingsins alls en ekki ríkisstjórnarinnar einnar og þó tveir minnstu flokkarnir hafi hlaupist að hluta undan merkjum á endasprettinum, verði ekki séð að neitt gap sé milli þings og þjóðar eins og einu sinni var.

„Gjaldeyrishöft, óviðunandi skuldatryggingarálag Íslands og lánsfjárfyrirgreiðsla til Íslands sem ekki fæst og er háð lausn á Icesavedeilunni eru ekki til þess fallin að skapa grundvöll stórræða í atvinnuuppbyggingu hér á landi sem er m.a. veigamikil forsenda kjarabóta,“ segir á vef Starfsgreinasambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert