Telur Icesave-málið ekki það stórt

Sölvi Tryggvason
Sölvi Tryggvason Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég hef ekki hótað afsögn. Ég sagði að ég myndi hugsa minn gang, sem er eðlilegt að ráðherra geri ef frumvarp frá honum og þinginu er hafnað,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í Spjallinu með Sölva Tryggvasyni á Skjá einum í kvöld.

Aðspurður hvort hann hefði slitið öll samskipti við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í janúar 2010 eftir að Icesave-lögunum var synjað taldi Steingrímur það ekki vera rétt. Sölvi benti á að þeir tveir hefðu ekki hist á tveggja manna fundum frá þeim tíma, líkt og tíðkaðist hjá forseta og fjármálaráðherra, sagði Steingrímur: „Staðreyndin er sú að forsetinn hefur ekki óskað eftir slíkum fundum með mér.“

Steingrímur sagði hvorki hann né Jóhönnu Sigurðardóttur hafa íhugað breytingu á 11. grein stjórnarskrárinnar, þar sem mælt er fyrir að þingið víki forsetanum með stuðningi meirihluta þingsins. „Þetta er hugsað sem alger öryggisventill. Það þarf 3/4, ef ég man rétt, þingmanna til að samþykkja og síðan fer það í þjóðaratkvæði. Það er nú mikið á menn lagt að fara að standa í slíku,“ sagði Steingrímur og bætti við að stutt væri í næstu forsetakosningar.

Þá bar Sölvi þessa spurningu upp: „Í hjarta þínu, ef þú værir í stjórnarandstöðu, heldurðu að þú værir ekki hlynntur því að þetta mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu?“ Steingrímur svaraði: „Nei ég efast um það vegna þess hvernig það er vaxið. Ég tel, og það kannski hneykslar einhverja, en ég ætla að segja það samt. Ég tel þetta mál ekki svo stórt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert