Karvel Pálmason látinn

Karvel Pálmason
Karvel Pálmason

Karvel Pálmason, fyrrverandi alþingismaður, er látinn 74 ára að aldri. Karvel var fæddur í Bolungarvík 13. júlí 1936, en foreldrar hans voru Pálmi Karvelsson sjómaður og Jónína Jóelsdóttir ráðskona.

Karvel stundaði nám í unglingaskóla í Bolungarvík. Hann var sjómaður í Bolungarvík 1950-1958 og síðan verkamaður til 1962. Hann var lögregluþjónn 1962-1971 og jafnframt kennari við barna- og unglingaskólann í Bolungarvík.

Karvel var kjörinn á Alþingi 1971 fyrir Frjálslynda vinstrimenn og sat á þingi til ársins 1991, frá 1983 fyrir Alþýðuflokkinn. Hann var formaður þingflokks Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1974-1978.

Karvel var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur um árabil, var varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða, sat í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og var um tíma varaformaður Verkamannasambands Íslands. Hann sat í hreppsnefnd Hólshrepps 1962—1970, í Rannsóknaráði ríkisins 1971—1978, í stjórn Fiskimálasjóðs 1972—1989. Hann átti sæti í stjórn Byggðastofnunar 1991—1995 og sat í flugráði um tíma.

Eftirlifandi eiginkona Karvels er Martha Kristín Sveinbjörnsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn.

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert