Stofna félag um Vaðlaheiðargöng í næstu viku

Snjó blásið af veginum í Vaðlaheiði.
Snjó blásið af veginum í Vaðlaheiði. mbl.is/Skapti

Nýtt félag sem áformar að ráðast í byggingu Vaðlaheiðarganga og reka þau verður stofnað í næstu viku. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segist hafa gefið grænt ljós á forútboð vegna ganganna. Hann sagði miklu skipta að heimamenn á Norðurlandi styðji að fjármagna göngin með gjaldtöku.

Ögmundur sagði þetta í umræðum um vegagerð og veggjöld, en Jón Gunnarsson alþingismaður hóf umræðuna. Jón sagði alvarlegt ástand hafa skapast í verktakastarfsemi vegna mikils samdráttar í vegagerð. Vegagerðin hefði áhyggjur af því að reynsla og þekking tapaðist vegna þessa. Hann minnti á yfirlýsingar stjórnvalda frá því í desember, að ráðist yrði í 40 milljarða framkvæmdir í vegamálum á næstu árum og að farið yrði í 6 milljarða útboð í janúar og febrúar á þessu ári. Ekkert hefði hins vegar gerst.

Ögmundur sagði að Alþingi hefði markað þá stefnu að ráðast í flýtiframkvæmdir í vegagerð og að þær yrðu fjármagnaðar með gjaldtöku. Andstaða hefði komið fram við þessa gjaldtöku á Suður- og Vesturlandi. Hann sagði að ekki hefði verið horfið frá þessum framkvæmdum. Sama andstaða væri ekki við málið á Norðurlandi og því væri verið að undirbúa göng undir Vaðlaheiði. Með forútboði fengju menn upplýsingar um vaxtakostnað og þær upplýsingar væru mikilvægar.

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður sagði að ástæðan fyrir andstöðu við málið væri að dæmið væri allt mjög óskýrt. Þegar hann hefði samþykkt að fara þessa leið hefðu menn verið að tala um 70-100 kr. gjald, en síðan hefðu menn farið að tala um mun hærri upphæðir. Málið hefði aldrei verið sett fram við íbúa með aðlaðandi hætti. Ögmundur sagði málið ekki snúast um að draga upp aðlaðandi mynd af því heldur að setja það fram með raunsönnum hætti. Kostnaður við breikkun vega á SV-horni landsins réðist m.a. af því hvort við værum að tala um 2 +1 veg eða 2 + 2 veg.

Jón Gunnarsson sagði að ríkisstjórnin hefði staðið fyrir aukinni skattheimtu á vegna umferðar og það m.a. breytti stöðu málsins. Hann sagðist vilja fjármagna þetta með sköttum, en ekki gjaldtöku. Kristján Möller alþingismaður sagði að sú leið þýddi að það tæki okkar 25-30 ár að byggja þessa vegi miðað við það fjármagn sem væri til skipta til vegagerðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert