Pálmi segist hafa skilað yfirlýsingu til New York

Jón Sigurðsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson.
Jón Sigurðsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson. mbl.is/Golli

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Pálma Haraldssonar, segir að Pálmi hafi skilað inn yfirlýsingum í samræmi við óskir dómarans í New York í máli sem slitastjórn Glitnis höfðaði gegn sjö fyrrverandi stjórnendum og eigendum Glitnis.

Dómari hafði samþykkt að vísa málinu frá gegn því skilyrði að sjömenningarnir skrifuðu undir yfirlýsingu um að hægt væri að ganga að eignum þeirra í Bandaríkjunum ef á Íslandi félli dómur slitastjórn í hag. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir að fimm hafi samþykkt þessi skilyrði, en tveir hafi ekki gert það.

„Yfirlýsingar Pálma hafa verið í samræmi við orðalagið í úrskurði dómarans. Það er dómarans að ákveða hvaða yfirlýsingar séu fullnægjandi og við höfum ekki heyrt neitt frá honum um að hann sé ósáttur við þær,“ sagði Sigurður.

Sigurður sagði að Pálmi hefði skilað þremur yfirlýsingum til dómarans. Einni hefði verið skilað í desember, annarri í janúar og þeirri síðustu núna í febrúar.

„Við höfum auk þess ekki heyrt það að það sé búið að taka þetta mál aftur fyrir í New York. Lögfræðingur Pálma í New York hafði a.m.k. ekki heyrt af því þegar ég talaði við hann í gær. Það er væntanlega dómarans að taka ákvörðun um þetta en ekki Steinunnar Guðbjartsdóttur,“ sagði Sigurður.

Steinunn sagðist ekki kannast við að Pálmi hefði skilað inn yfirlýsingum um málið. „Hann hefur a.m.k. engu skilað inn sem er fullnægjandi að mati okkar lögmanna í Bandaríkjunum.“

Steinunn sagði að dómarinn væri búinn að ákveða að taka málið aftur fyrir „vegna þess að á þeim tíma sem sú ákvörðun var tekin höfðu ekki komið yfirlýsingar frá Pálma Haraldssyni og Hannesi Smárasyni. Eftir að hann tók þessa ákvörðun sína skilaði Hannes inn yfirlýsingu, en mér vitandi hefur Pálmi engu skilað sem fullnægir skilyrðum dómarans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert