Samningsbrotamál líklegast

Stefán Már Stefánsson.
Stefán Már Stefánsson. mbl.is/Ásdís

Ef Icesave-samningnum verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu er líklegast að ESA fari af stað með samningsbrotamál gegn Íslendingum fyrir EFTA-dómstólnum. Gera verður ráð fyrir að Íslendingar gætu tapað því máli.

Þetta segir Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands en hann hélt fyrirlestur á opnum fundi Landsambands framsóknarkvenna og Sambands ungra framsóknarmanna um Icesave-deiluna í dag.

Sú málsókn sé líklegasta niðurstaðan þar sem ESA hafi þegar gert grein fyrir viðhorfi sínu í áminningarbréfi til íslenskra stjórnvalda. Stefán segist algerlega ósammála þeirri túlkun á tilskipun um innistæðutryggingar sem þar kemur fram en gera þurfi ráð fyrir þeim möguleika að EFTA-dómstólinn grípi sama agnið.

Ef Ísland tapi því máli þá sé sá dómur bindandi en ekki sé hægt að koma fram neinum viðurlögum. Íslendingum beri þá sjálfum að koma málum í lögmætt horf og skilgreina sjálfir skyldur sínar í þeim efnum. Þá vakni ýmsar spurningar hvernig það eigi að gerast, hvaða fjárhæðir ætti að greiða og hvenær. Þá mætti hugsa sér að fara þyrfti í annað samningsbrotamál til að athuga hvort Íslendingar hefðu fullnægt skyldum sínum.

Ísland færi ekki á koll

Þá ræddi Stefán Már um hugsanlegar afleiðingar þess fyrir Ísland að fara ekki eftir hugsanlegum dómi EFTA-dómstólsins um samningsbrot. Segir hann að Ísland færi ekki á koll við að tapa málinu en það hefði óþægindi í för með sér.

„Mér dettur ekki í hug að íslenska ríkið gerði ekki að minnsta kosti eitthvað en ef Ísland gerir ekki nóg eða ekkert í raun þá erum við með það yfir okkur að við séum að brjóta alþjóðalög. Ég sé það fyrir mér í viðskipta- og pólitísku samstarfi okkar,“ segir Stefán Már.

Stefán var spurður hvort að EES-samningum gæti verið sagt upp ef Íslendingar hafna Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hann ekkert samningsbrot felast í því enda höfum við aðeins verið að fara eftir stjórnskipulagslegum reglum landsins. Auðvitað geti samningnum verið sagt upp eins og alltaf en hugsanleg höfnun samningsins sé ekki samningsbrot sem gefi tilefni til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert