Atli: Horfi bara í aurana

Kosið til Stjórnlagaþings á Kjarvalsstöðum.
Kosið til Stjórnlagaþings á Kjarvalsstöðum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég var í sjálfu sér mjög spenntur fyrir þessu stjórnlagaþingi í upphafi og ég hafði samþykkt það. Ég held að stjórnlagaráð nái sama tilgangi og ráðgefandi stjórnlagaþing. Ég horfi bara í aurana. Ég verð að segja það,“ segir Atli Gíslason, þingmaður VG, um afstöðu sína til uppkosningar.

„Stjórnlagaþing átti að vera ráðgefandi. Alþingi á lokaorð um allar breytingar á stjórnarskránni og síðan þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan Alþingi aftur. Þannig að ég er sáttur við þessa lendingu,“ segir Atli og á við hugmyndir um stjórnlagaráð. 

- Það hefur verið haft eftir Ögmundi Jónassyni að honum hugnist ekki þessa stjórnlagaþingsleið. Hvað finnst þér um þá afstöðu innanríkisráðherra?

„Ég skil hann mætavel. Við eðlilegar aðstæður hefði uppkosning verið eðlilegust. Þetta gerir sama gagn, stjórnlagaráð og stjórnlagaþing. Við höfum annað við peningana að gera. Ég er á praktískum nótum,“ segir Atli og tekur fram að hann setji spurningarmerki við að setja hundruð milljóna í að framkvæma uppkosningu. 

Ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu

- Fram kom í máli fjögurra stjórnlagaþingsframbjóðenda í Morgunblaðinu í gær að þeir vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur ráðsins, ef það tekur þá til starfa, áður en þær koma til kasta alþingis. Hvað finnst þér um þessar hugmyndir?

„Það var aldrei gert ráð fyrir því. Það var gert ráð fyrir að stjórnlagaþing kæmi með tillögur inn til alþingis. Ef að alþingi samþykkir þær þá þarf að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var aldrei gert ráð fyrir að tillögur stjórnlagaþings færu í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda fara þær inn í þingið.

En vel að merkja, ef það á að fara í þetta stjórnlagaráð þarf að breyta lögunum um stjórnlagaþing, afnema þau lög og setja inn í sömu lög ákvæði um hlutverk stjórnlagaráðs. Mér finnst ég ná sömu niðurstöðu í málinu með því.“

Á að klárast í vor

- Hvað heldurðu að það taki langan tíma, að afnema gömlu lögin og samþykkja ný svo stjórnlagaráð geti tekið aftur til starfa?

„Það ætti alveg að geta klárast á þessu vorþingi. Ég sé ekki vandkvæði á því. Það eru þrír mánuðir til stefnu og það ætti alveg að geta klárast fyrir vor. Og ég sé fyrir mér að þetta ráð taki til starfa í sumar.“

- Þannig að það er ekki í myndinni að stjórnlagaráðið taki til starfa í mars?

„Nei. Það er ekki í myndinni. Ég sé líka fyrir mér af hagkvæmnisástæðum að þetta stjórnlagaráð starfaði í sumar á meðan þing situr ekki og nýtti aðstöðu þingsins. Þá er ég ekki endilega að tala um þingsalinn, heldur er aðstaða þingsins öll fyrir hendi, starfsmenn og annað. Þá má gera þetta hagkvæmar. Við verðum að velta hverri krónu í þeim hremmingum sem að við erum í.“

Komi til kasta þingsins í haust

- Það er því óraunhæft að ráðið byrji að starfa í mars?

„Já. Ég hef ekki trú á því. Það þarf að fara vandlega yfir þetta. Það þarf að leggja fram frumvarp. Það fer inn í nefnd og það verður kallað eftir umsögn.

Það kæmi til okkar kasta í haust á haustþingi. Þetta skiptir ekki máli tímalega séð vegna þess að ef ráðið tæki til starfa í byrjun mars myndu þessar tillögur aldrei koma inn fyrr en í haust. Stjórnlagaráð myndi aldrei ljúka sér af fyrr en í maí. En ég skil vel sjónarmið Ögmundar. Stjórnlagaráð hefur sama tilgang og stjórnlagaþing.

Tilgangurinn er að breyta stjórnarskránni og menn eru almennt um það að það þurfi að endurskoða stjórnarskrána. Sú vinna er 90-95% búin. Það liggja fyrir tillögur frá fyrri stjórnarskrárnefndum, bæði um auðlindirnar og sitthvað fleira. Það er hlutverk forsætaembættisins og eitt og annað sem þarf að skoða betur. Það er búið að vinna óhemju vinnu í stjórnarskrárbreytingum allt frá árinu 2001, ef ég man rétt. Síðan komu fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira á vorþingi 2009. Hugmyndir liggja fyrir að mjög miklu leyti. Það er hægt að moða úr þeim.

Aðalatriðið er þetta: Stjórnlagaráð nær að mínu mati sama tilgangi og stjórnlagaþing en við spörum okkur einhver hundruð milljóna í kosningum. Svo er deiluatriði hvort að setja ætti upp upp kosninguna - og Icesave. Ég held að það hafi ekki verið skynsamlegt. Þannig að þá þurfum við að halda kosningar og síðan uppkosningu. Við verðum að horfa á tilganginn. Hvað skilar þessum markmiðum sem að við stefnum að við að breyta stjórnarskránni.“

Atli Gíslason, þingmaður VG.
Atli Gíslason, þingmaður VG. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert