Ætla að halda áfram fiskvinnslu á Flateyri

Vinnslusalur á Flateyri.
Vinnslusalur á Flateyri. mbl.is/Halldór

Sigurður Aðalsteinsson, hjá Lotnu ehf. á Flateyri, segir að fiskvinnsla haldi áfram á Flateyri þó að Byggðastofnun leggist gegn kaupum Lotnu á eignum úr þrotabúi Eyrarodda. Hann segir að lögfræðingur Byggðastofnunar sé búinn að skrifa undir pappíra um sölu til Lotnu.

„Við munum halda áfram að vinna fisk á Flateyri enda erum við búnir að kaupa þessar eignir,“ sagði Sigurður. „Skiptastjóri þrotabús Eyrarodda er búinn að selja Lotnu allar eignir búsins, sama hvort það eru eignir sem eru með veði í eignum Byggðastofnunar eða annarra. Byggðastofnun á engar eignir þarna á staðnum. Hún á bara veð í hluta af þessum eignum. Allir veðhafar í þessum eignum voru búnir að samþykkja kauptilboð okkar. Þeir sem lánuðu til kaupanna hafa samþykkt að breyta lánum. Byggðastofnun er ekki að samþykkja neitt kauptilboð. Stofnunin er bara að samþykkja að skipta um greiðanda á þeim eignum sem stofnunin er með veð í,“ sagði Sigurður.

Eyraroddi átti þrjú fiskvinnsluhús á Flateyri og sagði Sigurður að Byggðastofnun hefði átt veð í tveimur þeirra. Ef Byggðastofnun ákveði að leysa til sín þessar tvær eignir þá haldni Lotna bara áfram fiskvinnslu í þriðja húsinu. „Reksturinn verður ekki stöðvaður þarna,“ sagði Sigurður.

Sigurður er harðorður í garð Byggðastofnunar. „Það er eins og hægri höndin viti ekki hvað vinstri höndin er að gera. Ég er ekki hissa á að rekstur Byggðastofnunar gangi svona illa ef þetta eru vinnubrögðin sem eru viðhöfð.“

Sigurður sagði að fiskvinnslan á Flateyri gengi vel. Vel hefði aflast og nóg vinna væri hjá starfsmönnum fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert