Sigmundur: Stjórnlagaþingið getur beðið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Kristinn Ingvarsson

„Ég hef talið best að nýta tímann sem að menn hafa. Menn hafa tíma. Það liggur ekkert á að klára þetta,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, um afstöðu sína til stjórnlagaþingsmálsins.

„Það er ráð að taka til skoðunar hvort ekki sé hægt að gera úrbætur á málinu og leysa úr þeim göllum sem voru komnir í ljós áður en Hæstiréttur skilaði sinni niðurstöðu.“ 

- Hvað með uppkosningu?

„Ég hefði frekar kosið, ef menn ætla að halda nýtt stjórnlagaþing, að fara þá leið að reyna að breyta fyrirkomulaginu með þeim hætti að það lagaði þessa galla. Það myndi hvetja til aukinnar þátttöku, skýrara kjörs og skila meiri þverskurði þjóðarinnar,“ segir Sigmundur Davíð og á við að hann kjósi frekar aðra kosningu með skýrari umgjörð.

„Ég hef engan sérstakan tímaramma í huga, aðeins að menn geri það sem þarf og vinni það vel.“

- Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra útilokar ekki í samtali við Morgunblaðið að uppkosning geti farið fram í maí, þ.e.a.s. áður en sumarfrí hefjast. Telurðu að það sé raunhæfur möguleiki?

„Það gæti svo sem verið það. Hins vegar felur sú tillaga væntanlega í sér að stjórnlagaþingið starfi þá í sumar en ég tel það frekar óheppilegt. Það væri ef til vill betra að kjósa í haust og að þingið taki svo við í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert