Íhugar að stefna DV fyrir persónuníð

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segist íhuga mjög alvarlega að stefna DV fyrir persónuniíð og meiðyrði fyrir frétt, sem birtist í blaðinu í dag af óhappi sem Gylfi og sonur hans lentu í á Kjalvegi.

DV sagði að Gylfi hefði misst glæsilega Land Cruiser-bifreið sína ofan í vatn en bíllinn kosti fleiri milljónir.

Gylfi segir hins vegar, að um sé að ræða 11 ára gamlan Nissan Patrol jeppa sem hann keypti af björgunarsveit fyrir nokkrum árum.

„Ég get alls ekki unað því að almenningi sé með svo óábyrgum hætti talið trú á að ég aki um á Toyota Land Cruiser jeppa þegar hið sanna er að ég hef lengi verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi. Líklegt er að ég muni, auk þess að þessi frétt verði dæmd dauð og ómerk, krefjast miskabóta af hálfu DV með þeim  hætti, að blaðinu verði gert að kaupa bifreiðina á eigin verðmætamati," segir Gylfi í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér.

Yfirlýsing Gylfa:

„Í frétt DV í dag, mánudaginn 28. febrúar, er fjallað um það þegar ég lenti í óhappi á Kjalvegi fyrir nokkrum vikum. Stíll fréttarinnar er undarlegur og á lítt skylt við blaða- og fréttamennsku en þeim mun meira sem fóður til að ala á tilteknum viðhorfum og tilfinningum. Fyrir utan atburðinn sjálfan er fátt rétt í fréttinni, enda það greinilega ekki markmiðið með birtingu hennar.  Svona í framhjáhlaupi get ég upplýst, að það er miður skemmtileg upplifun að hrynja algerlega óvænt í gegnum ís sem myndast hafði eftir asahláku með son sinn 17 ára sér við hlið – en allt fór það nú vel og við feðgar komumst heilir frá þessu volki.

Hitt er rétt að fram komi, að jeppabifreið sú sem ég hef haft mikla unun af að aka um hálendi Íslands og jökla í góðum vinahópi, er alls ekki ný Toyota Land Cruiser bifreið eins og skilja má af frétt DV heldur ellefu ára gamall Nissan Patrol jeppi sem ég keypti af björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli fyrir nokkrum árum.

Það skal tekið fram að ég hef í starfi mínu sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni haft lítil afskipti af ýmsum þeim rangfærslum og útúrsnúningi sem DV og aðrir sambærilegir fjölmiðlar hafa um mig. Meira tekið það sem hluta af því álagi sem fylgir starfinu. En nú er mál að linni. Ég íhuga það nú mjög alvarlega að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði vegna þessarar fréttar um mína persónuhagi. Ég get alls ekki unað því að almenningi sé með svo óábyrgum hætti talið trú á að ég aki um á Toyota Land Cruiser jeppa þegar hið sanna er að ég hef lengi verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi. Líklegt er að ég muni, auk þess að þessi frétt verði dæmd dauð og ómerk, krefjast miskabóta af hálfu DV með þeim  hætti, að blaðinu verði gert að kaupa bifreiðina á eigin verðmætamati.

Gylfi Arnbjörnsson"


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert