Skóladagurinn muni lengjast

Frá árlegu kassabílaralli frístundaheimila í Vesturbæ Reykjavíkur.
Frá árlegu kassabílaralli frístundaheimila í Vesturbæ Reykjavíkur. Ómar Óskarsson

Stjórn Félag fagfólks í frítímaþjónustu mótmælir harðlega áformum borgarinnar um sameiningu frístundaheimilis og grunnskóla, sem áform virðast vera um. Elísabet Pétursdóttir, formaður félagsins, segist óttast að með þessu lengist einfaldlega skóladagurinn og börnunum verði ekki lengur boðið upp á markvisst og sérhæft frístundastarf. Menning og starf skóla og frístundaheimila sé mjög ólík.

Í fréttum RÚV í hádeginu kom fram að frístundaheimilin í Reykjavík yrðu færð undir grunnskólana. Elísabet segist í raun hafa litlar upplýsingar um fyrirætlanir meirihlutans í þessum efnum en Félag fagsfólks í frítímaþjónustu hafi ekki fengið að taka þátt í starfi starfshóps um sameiningar og hagræðingu í skólastarfi í borginni. Starfshópurinn leggur tillögur sínar fram í borgarráði á fimmtudag.

Ánægja með tilraunastarfs í Breiðholti

Í yfirlýsingu frá félaginu kemur fram að á sínum tíma hafi þótt vera faglegur ávinningur af því að flytja heilsdagsskóla grunnskólanna frá skólunum til Íþrótta- og tómstundasviðs og stofna frístundaheimili. Það hafi verið gert á árunum 2002-2004. „Megin ástæða innleiðingarinnar var gífurleg ánægja foreldra auk sýnilegs faglegs ávinnings með það tilraunaverkefni sem unnið var á vegum frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti á árunum 2000 til 2002,“ segir í yfirlýsingunni.

Elísabet segir að gagnrýni foreldra á þessum tíma hafi beinst að því að í heilsdagsskólunum hefði verið gæsla og geymsla en ekki markvisst frístundastarf. Hún óttast að starfið færist aftur í gamla farið með því að sameina starfið á nýjan leik. Reyndar séu litlar upplýsingar að fá um hvað borgaryfirvöld hyggist fyrir í málinu. Umræða um málið hafi þar að auki verið afar lítil.

Ólík menning

Elísabet bendir á að starfsemi og sú menning sem ríki á frístundaheimilum sé ólík grunnskólanum. Í skólunum sé unnið eftir formlegri námsskrá en á frístundaheimilum sé unnið með önnur gildi og starfið byggi á óformlegri menntun. Í Háskóla Íslands sé sérstök deild sem byggir á að mennta fólk í þeim fræðum sem notuð eru á vettvangi frítímans.

Í yfirlýsingu félagsins er bent á að í frístundamiðstöðvunum sé markvisst unnið að því að efla starf frístundaheimilanna og styðja við fagvitund starfsmanna. „Með því að færa frístundaheimilin yfir til skólanna er í raun verið að segja að ekki sé pólitískur vilji fyrir því að unnið sé með börn sérstaklega á vettvangi frítímans heldur sé meiri hagur í því að samnýta starfsfólk skólanna óháð því hvaða fagvitund þeirra sé á starfi með börnum í frítímanum.“

Börn á frístundaheimili á jólamarkaði sem haldinn var til styrktar …
Börn á frístundaheimili á jólamarkaði sem haldinn var til styrktar börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert