MC Iceland fær aðild að Vítisenglum

Frá blaðamannafundi innanríkisráðherra og lögreglu í dag.
Frá blaðamannafundi innanríkisráðherra og lögreglu í dag. mbl.is/Júlíus

Íslenski mótorhjólaklúbburinn MC Iceland mun í Ósló um næstu helgi öðlast fulla aðild að samtökunum Vítisengla. Þetta kom fram á blaðamannafundi innanríkisráðherra og lögreglunnar í dag.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, sagði á blaðamannafundinum, að þetta þýddi breytingu á viðfangsefni lögreglunnar hér á landi því hún þurfti nú að eiga við alþjóðlegan glæpahóp sem Íslendingar eiga aðild að.

„Þetta þýðir að þeir munu njóta styrks og fjármuna alþjóðlegu glæpasamtakanna," sagði Haraldur.  

Hann sagði að ríkislögreglustjórar Norðurlandanna hefðu sagt við sig fyrir nokkrum árum, að Íslendingar væru í góðri stöðu því þeir hefðu tíma til að undirbúa sig og koma í veg fyrir þá þróun sem orðið hefði í Danmörku og Noregi.

„Við höfum notað tímann og nú erum við komnir að þessum tímapunkti," sagði Haraldur. 

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði að Íslendingar hefðu allar forsendur til að geta brugðist betur við þessari þróun en orðið hefði á hinum Norðurlöndunum. 

„Það er mjög skýr ásetningur okkar að safna liði í samfélaginu gegn þessum ófögnuði," sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. Hann kynnti á fundinum áform um að leggja fram frumvarp á Alþingi um auknar rannsóknarheimildir lögreglu. Ögmundur kynnti þessi áform einnig á Alþingi í gær. 

Auk þeirra Ögmundar, Haraldar og Stefáns sátu fundinn Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum og Snorri Olsen tollstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert