Könnun á leiguverði umdeilanleg

Upplýsingar skortir um leiguverð á íbúðarhúsnæði.
Upplýsingar skortir um leiguverð á íbúðarhúsnæði. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Niðurstöður könnunar Neytendasamtakanna á leiguverði íbúðarhúsnæðis eru umdeilanlegar að mati Velferðarráðuneytisins, þar sem ekki var byggt á úrtaki samkvæmt viðurkenndum rannsóknaraðferðum heldur óskað eftir þátttakendum.

Alls tóku 817 einstaklingar þátt í könnun Neytendasamtakanna. Óskað var eftir upplýsingum frá leigjendum á heimasíðu samtakanna 11. febrúar síðastliðinn og stóð könnunin til 26. febrúar. Í skýrslu um könnunina kemur fram að sérstaklega hafi verið óskað eftir þátttöku fólks á landsbyggðinni og þaðan hafi borist svör frá 132 þátttakendum.

 „Framkvæmd könnunar Neytendasamtakanna er ágæt viðleitni til að nálgast upplýsingar um leiguverð. Það gefur þó auga leið að með því að auglýsa eftir þátttakendum í stað þess að byggja á úrtakskönnun er útilokað að draga stórar ályktanir af niðurstöðunum og augljóst að þær gefa ekki raunhæfa mynd af leigumarkaðnum í heild," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. „Þátttaka fólks byggist á því að það hafi sérstakan áhuga á að koma upplýsingum á framfæri. Ljóst er að samsetning leigumarkaðarins skiptir máli, ekki síst varðandi eignarhald íbúðanna sem eru í útleigu, svo sem hvort þær eru í eigu sveitarfélaga, einstaklinga, fyrirtækja eða félagasamtaka, og hlutfallsleg skipting leigjenda á íbúðir eftir eignarformi. Það vekur til dæmis athygli að aðeins 3% þátttakenda í könnuninni leigja hjá Félagsbústöðum sem er stærsti leigusali landsins."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert