Gert að afhenda börn

Hæstiréttur hefur fallist á kröfu karlmanns, um að fyrrum eiginkona hans afhendi honum þrjú börn þeirra innan sex vikna.  Konan flutti á síðasta ári frá Danmörku til Íslands með börnin og taldi Hæstiréttur að það hefði hún gert með ólögmætum hætti.

Héraðsdómur Austurlands hafði áður komist að sömu niðurstöðu. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram, að um er að ræða þrjár stúlkur, fæddar árin 2004, 2006 og 2007. Foreldrar þeirra voru í óvígðri sambúð þegar börnin fæddust en þeir gengu í hjónaband í Danmörku árið 2009. Hjónin eru nú skilin en fóru sameiginlega með forsjá dætranna. 

Í úrskurðinum eru raktar deilur fólksins um umgengni við börnin og komu þær meðal annars til kasta danskra dómstóla og er forsjárdeila þeirra þar enn til meðferðar. Í október á síðasta ári fór konan síðan með dæturnar til Íslands.

Maðurinn kærði konuna fyrir að nema börnin á brott og er það mál til meðferðar í Danmörku. Konan sagðist hafa sætt andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu mannsins og sagðist telja alvarlega hættu á því að afhending barnanna til Danmerkur muni skaða þau andlega og líkamlega.

Héraðsdómur segir hins vegar að af hálfu konunnar hafi ekki verið gerð grein fyrir því á hvern hátt þeim aðstæðum, sem börnin bjuggu við í Danmörku, hafi verið ábótavant. Er því fallist á kröfu mannsins um að hann fái dæturnar afhentar innan átta vikna. Hæstiréttur segir einnig, að ekki ætti að synja um afhendingu barnanna á grundvelli undantekningarákvæða í lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert