Hátt í tonn af saltkjöti tilbúið

Jóhann Ólafur Ólason með saltkjötsfatið.
Jóhann Ólafur Ólason með saltkjötsfatið. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er allt saman tilbúið, við erum búnir að verka hátt í tonn af saltkjöti í tunnur síðasta hálfa mánuðinn eða svo," segir Jóhann Ólafur Ólason verslunarstjóri í kjöt- og fiskversluninni Til sjávar og sveita í Ögurhvarfi í Kópavogi.  Búast má við að landinn þenji sig út af saltkjöti og baunum á morgun, eins og hefðin býður á sprengidag.

„Fólk er komið í gírinn, þetta byrjaði strax í dag að seljast og gengur vel. Oft selst ekkert minna deginum á undan þegar fólk kaupir þetta með fiskbollunum og baununum, því þær þurfa sumar að liggja í bleyti í sólarhring. En hápunkturinn er auðvitað á morgun," segir Jóhann.  Saltkjötið nýtur árvissra vinsælda, en Jóhann segir þó að þess á milli seljist fremur lítið af því.

„Það hefur minnkað rosalega mikið og virðist vera að fólk leyfi sér þetta svona einu sinni ári. Ég er reyndar stundum með saltkjöt í heita matnum í hádeginu og þá fer þetta aðeins þegar kallarnir eru að koma, verktakar og svona, þeim finnst gott að fá þetta í heita matinn. En saltkjötneysla hefur á heildina minnkað mjög nema á sprengidaginn og þá er greinilegt að fólk vill halda í hefðirnar, svona svipa og með þorramatinn."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert