Minna til ráðstöfunar

Hækkanir á gjaldskrám orkuveitna hafa mest áhrif á hækkun neysluverðsvísitölunnar.
Hækkanir á gjaldskrám orkuveitna hafa mest áhrif á hækkun neysluverðsvísitölunnar. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Hækkanir á gjaldskrám sveitarfélaga og á ýmsum gjöldum ríkisins frá áramótum valda 0,91% hækkun á vísitölu neysluverðs. Ráðstöfunartekjur heimila dragast saman um 0,1% vegna breytinga á sköttum og breytingum í bótakerfunum á þessu ári. 
 

Þetta kemur fram í úttekt vinnuhóps á vegum ríkissáttasemjara en í honum sátu 12 fulltrúar allra heildarsamtaka á vinnumarkaði og viðsemjenda þeirra.

Vinnuhópurinn lagði mat á áhrif aðgerða í fjármálum ríkisins og sveitarfélaga sem gengu í gildi frá seinustu áramótum á verðlag og ráðstöfunartekjur.

Í greinargerð hópsins kemur fram að mest áhrif til hækkunar á verðlagi hafa hækkanir á gjaldskrám orkuveitna fyrir hita og raforku sem valda 0,49% hækkun á neysluverðsvísitölunni. Hækkanir á vörugjöldum á eldsneyti, áfengi og tóbaki valda 0,21% hækkun.

Fram kemur að gjöld vegna heilbrigðisþjónustu hækka um 0,9% á árinu, lóðarleiga sveitarfélaga um 16,4%, sorphreinsun hækkar um 18,7%, holræsagjöld um 11,7% og fargjöld strætisvagna um 13,9%.

Við mat á verðlagsáhrifunum var stuðst við útreikninga Hagstofunnar.

Mismikil áhrif eftir fjölskyldugerðum

Vinnuhópurinn lagði einnig mat á áhrif breytinga á sköttum og tilfærslu- og bótakerfum ríkis- og sveitarfélaga, auk sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu á ráðstöfunartekjur heimilanna.

„Í heildina dragast ráðstöfunartekjur saman um 0,1% vegna aðgerðanna en þegar áhrifin eru skoðuð eftir fjölskyldugerðum má sjá að ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra aukast nokkuð eða um 1,6%. Ef frá eru talin áhrifin af sérstöku vaxtaniðurgreiðslunni hefðu ráðstöfunartekjur dregist saman um 0,9% í heildina, mest hjá hjónum og sambúðarfólki um 1%. Einnig er skoðað sérstaklega hver heildaráhrif á ráðstöfunartekjur hefðu orðið ef auk ofangreindra aðgerða hefði komið til hækkun á persónuafslætti á árinu 2011 um 3.000 krónur auk verðlagsuppfærslu, líkt og áformað var. Miðað við þær forsendur hefðu ráðstöfunartekjur aukist í heildina um 1,2% en um 3% hjá einstæðum foreldrum,“ segir í skýrslu vinnuhópsins.

Ítarlega er fjallað um áhrif aðgerða og breytinga í opinberum fjármálum á ráðstöfunartekjur fjölskyldna í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert