Gjaldið verður hóflegt

Stofnfundur hlutafélagsins Vaðlaheiðarganga hf var á Hótel KEA í morgun.
Stofnfundur hlutafélagsins Vaðlaheiðarganga hf var á Hótel KEA í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra og stjórnarmaður í félaginu Vaðlaheiðargöng hf, segir að gjald um Vaðlaheiðargjald verði hóflegt. Það ráðist af tilboðum sem koma, fjármagnskostnaði og umferð um göngin.

Félagið Vaðlaheiðargöng hf. var stofnað á Akureyri í morgun. Kristján sagði að forvalsgögn væru tilbúin og forvalið, sem fer fram á EES, yrði auglýst í þessum mánuði. Í forvali er verkefninu lýst og þeir sem sýna áhuga á að taka þátt í verkefninu eru metnir m.a. með tillit til fjárhagslegrar getu og verkhæfni. Síðan er ákveðið hverjir fá að taka þátt í útboðinu. Kristján sagði að forval og útboð og yfirferð yfir tilboðin tæki allt að sex mánuði. „Ef þetta gengur allt eftir þá gætum við verið að byrja á framkvæmdum í haust,“ sagði Kristján.

Upphaflega var fyrirhugað að lífeyrissjóðirnir lánuðu beint til félagsins sem gerði og ræki göngin. Upp úr þeim viðræðum slitnaði í desember þar sem ekki náðist samkomulag um vexti. Í framhaldinu setti Alþingi inn ákvæði í fjárlög sem heimiluðu að ríkissjóður tæki að láni fjármuni og endurláni það til félagsins.

Kristján sagði að ekki lægi fyrir hvaða vextir yrðu af þessu láni, en vextir hefðu verið að lækka síðustu misserin og væru nú lægri en þeir voru þegar slitnaði upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina í desember.

Kristján sagði að við undirbúning málsins hefði verið sett upp nokkur  reiknilíkön. „Þrír veigamestu þættirnir í því hvert veggjaldið verður eru framkvæmdakostnaður, fjármagnskostnaðurinn og umferðarmagnið. Heiildarkostnaður við framkvæmdir er áætlaður 10,4 milljarðar og við eigum eftir að sjá hvernig tilboðin verða, en við höfum verið að fá tilboð upp á 70-80% af framkvæmdakostnaði. Ef við fáum tilboð upp á 85% af kostnaðaráætlun þá lækkar framkvæmdakostnaður um 1,5 milljarð. Ég tel því allar forsendur til að veggjaldið verði hóflegt.“

Kristján sagði að hver vegfarandi um göngin sparaði sér 16 kílómetra.  Hann vildi ekki tjá sig um hvert veggjaldið yrði nákvæmlega en sagði aðspurður að það yrði undir 1000 krónum miðað við reiknilíkönin. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert