Jákvæðara andrúmsloft á makrílfundi

Þriggja daga samningafundi í makríldeilunni lauk í Ósló í morgun. Engin niðurstaða fékkst á fundinum en Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands, segir að á fundinum hafi verið jákvæðara andrúmsloft en verið hafi á fyrri fundum.

Í fundinum tóku þátt fulltrúar Íslands, Evrópusambandsins, Færeyja og Noregs auk Rússlands sem hafði stöðu áheyrnaraðila en fjallað er um skiptingu makrílveiðikvóta í Norðaustur-Atlantshafi.

Tómas segir, að á fundinum hafi Íslendingar lagt áherslu á, að útgangspunkturinn væri núverandi hlutdeild Íslands í makrílveiðunum, eða 16-17%. En þeir hafi gefið til kynna aukinn sveigjanleika til að fallast á lægri hlutdeild gegn aðgangi að lögsögu Evrópusambandsins og Noregs.

„Við væntum þess að ESB og Noregur muni í framhaldinu stíga skref til móts við okkur til að minnka það bil sem enn er milli ríkjanna," segir Tómas Heiðar. 

Hann segir mikilvægt að ná samkomulagi um heildarstjórnun makrílveiðanna til að koma í veg fyrir ofveiði úr stofninum og tryggja sjálfbærar veiðar, enda sé það öllum í hag. Mikilvægt sé þó, að ESB og Noregur geri sér grein fyrir því að þeir eigi þar mestra hagsmuna að gæta og Íslendingar vænti þess að þessir aðilar muni nú leggja sitt af mörkum til að samkomulag náist.

Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvenær næsti fundur verður haldinn en ríkin verða í sambandi á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert