Loka síðu um einelti

mbl.is

Stjórnendur facebook síðunnar Eineltisþolendur í Grunnskólanum í Hveragerði hafa ákveðið að loka síðunni. Þeir segjast hafa orðið fyrir miklum þrýstingi og hótunum frá bæjarbúum.

Í yfirlýsingu segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin „eftir mikla íhugun og það mikla áreiti sem við höfum orðið fyrir með símhringingum og einkapósti þar sem mikið var þrýst á okkur að loka síðunni með beinum og óbeinum hótunum af hálfu bæjarbúa. Sorgleg staðreynd er það að svo virðist sem bæjarbúar sjái ekki sóma sinn í að horfa á það alvarlega ástand sem yfirvöld skólans hafa komið sér í með ráðaleysi um mál nokkurra einstaklinga sem enn eru skráðir nemendur í skólanum.“


Davíð Michelsen segir í yfirlýsingunni: „Þekki ég af eigin raun hvernig tekið var á málunum á minni skólagöngu og get ég ekki trúað því að yfirstjórn skólans snúi skyndilega við blaðinu og geri allt í sem í þeirra valdi stendur. Til að mynda eru meintir gerendur enn á sínum stað. Svo virðist sem þagga eigi þetta niður enn eina ferðina og láta sem ekkert sé.


Fórnarlömb eineltis bera oftast ekki utan á sér þau djúpu sár sem einelti hefur á sálina og er þá í raun ekki hægt að ætlast til af skólastarfsliði að það sjái alltaf hvað er að gerast enda er andlegt ofbeldi vel falið. Þess vegna þarf að stórefla eineltisfræðslu í öllum skólum og fylgja eftir hverju máli sem kemur inná borð til handhafa skólavalds því nú þegar er skaðinn mikill á marga einstaklinga. Hvetja þarf alla sem telja sig verða fyrir ofbeldi í grunnskólum að stíga fram og segja frá, öðruvísi er ekki hægt að taka á vandanum. En munum að margir þolendur segja oftast ekki frá því ofbeldi sem þeir verða fyrir, sem gerir það svo brýnt að við séum vakandi fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. Foreldrar, fræðum börnin okkar vel og oft svo ekki þurfi að senda brotnar sálir útí lífið. Við berum öll ábyrgð á velferða barna okkar. Einelti er dauðans alvara,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert