Boðar 2.200 ársverk

Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að á kjarasamningum og niðurstöðu um Icesave geti oltið hagvaxtarhorfur, áform um afnám gjaldeyrishafta og þar með atvinnuuppbyggingin  öll.

Jóhanna sagði í utandagskrárumræðu um stöðu atvinnumála, að nú væri talið að hagvöxtur á þessu ári verði 2% í stað 3% eins og áður var spáð og það væri vissulega áhyggjuefni.

Þá sagði hún  að ef litið væri til þeirra framkvæmda, sem væru í undirbúningi og ef sátt næðist  um fjármögnun þeirra, svo sem í vegamálum, þá yrðu fljótlega sköpuð 2.200-2.300 ársverk og 500-600 bein varanleg störf við framtíðarrekstur. Nefndi Jóhanna aukna afkastagetu álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, byggingu kísilmálmverksmiðju í Helguvík, hreinkísilverksmiðju í Grindavík og natríumklóratverksmiðju á Grundartanga.

Ólöf Nordal, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fór fram á umræðuna og sagði að forsætisráðherra hefði lýst ákveðinni stöðnun í efnahagskerfinu og engin hreyfing væri á hagvexti. 

Sagði Ólöf að meginvandinn í atvinnulífinu væri, að umgerðin, sem ríkisstjórnin væri að skapa, væri fyrirtækjum fjandsamleg. Erlendir og innlendir fjárfestar héldu að sér höndum vegna þess að hér á landi ríkti pólitísk óvissa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert