Jón Gnarr varar við að fella Icesave

Jón Gnarr sagði í Vínarborg í gær að höfnun Icesave …
Jón Gnarr sagði í Vínarborg í gær að höfnun Icesave þýddi endalok ESB-umsóknar og ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Golli

Ef Íslendingar hafna Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl blasa „grafalvarlegar afleiðingar“ við þjóðinni, segir Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við austurrísku fréttastofuna APA. Jón, sem staddur er í Vínarborg, sagði að yrði samkomulaginu hafnað gæti umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu runnið út í sandinn og stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fallið.

Jón sagði í samtalinu að hann hygðist sjálfur greiða atkvæði með samkomulaginu. „Ég ætla að greiða atkvæði með því, ekki vegna þess að ég skilji það eða ég telji að það sé rétt, heldur er ég einfaldlega orðinn frekar leiður á málinu. Ég ætla að kjósa það í burt," sagði hann.

Jón kvaðst ekki vita hvort Íslendingar væru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu, en margir vildu ganga í ESB til þess að taka upp evru sem gjaldmiðil. „Krónan okkar er Mikkamúsarpeningur,“ sagði Jón og bætti við að hann væri persónulega hlynntari því að taka upp dollara. „Ekki þarf að ganga í Bandaríkin til þess.“

Borgarstjóri var spurður um pólitískar horfur á Íslandi félli ríkisstjórnin í kjölfar atkvæðagreiðslu á Icesave og sagði að ef til vill kæmust þá íhaldsmenn aftur til valda. Bætti hann við að gerðist það myndi hann „flytja til Grænhöfðaeyja“.

Jón segir að síðustu í viðtalinu að þrátt fyrir vinsældir sínar myndi hann ekki bjóða sig fram til þings. „Ég mun ekki fara fram, hef ekki áhuga á því. Ég verð í Reykjavík.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert