Atvinnumál brýnasta verkefnið í stjórnmálum

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, sagði í umræðum á Alþingi í dag að ekkert verkefni væri brýnna í stjórnmálum á Íslandi en að auka fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.

Helgi lagði áherslu á að þetta yrði gert með því að skapa almenn skilyrði fyrir fjárfestingum í atvinnulífi frekar en að einblínt yrði á einstök verkefni. Hann sagði að það þyrfti að eyða óvissu um skuldamál fyrirtækja, um afnám gjaldeyrishafta og um framtíð Icesave-málsins. Hann sagði að hægt væri í gegnum skattkerfið að stuðla að nýjum fjárfestingum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að nú væru aðilar vinnumarkaðarins að kalla eftir aðgerðum stjórnvalda í atvinnumálum og aukinni fjárfestingu. Þetta hefðu þeir líka gert 2009, en stjórnvöld hefðu ekkert gert. Það vantaði um 150 milljarða fjárfestingu inn í atvinnulífið sem menn hefðu reiknað með að færi í gang 2009. Þessi fjárfesting væri forsenda fyrir hagvexti og bættum kaupmætti.

Kristján Þór Júlíusson alþingismaður sagði stöðu mála í Þingeyjarsýslu lýsandi fyrir stöðu mála. Þar hefðu menn orkuna og hefðu unnið ötullega að því að koma af stað nýjum verkefnum, en ríkisstjórnin hefði stöðvað þetta með aðgerðarleysi.

Lilja Mósesdóttir alþingismaður sagði að ástæða fyrir því að krafturinn í atvinnulífinu væri ekki meiri væri of mikill niðurskurður í ríkisútgjöldum og tafir á því að gengið væri frá skuldamálum fyrirtækja. Hún minnti á að lítil og meðalstór fyrirtæki sköpuðu flest störfin. Hún benti líka á að mikill ójöfnuður dragi úr hagvexti til lengri tíma litið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert