Segja barnafatnað nauðsynjavöru

Barnafatnaður ber í dag 25,5% virðisaukaskatt.
Barnafatnaður ber í dag 25,5% virðisaukaskatt. Kristinn Ingvarsson

Hagkaup hefur sent Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra bréf þar sem skorað er á ríkisvaldið að afnema virðisaukaskatt af barnafatnaði, eða lækka hann verulega. Bent er á að barnafatnaður er nauðsynjavara og að útgjöld fjölskyldunnar vegna fatnaðar barna eru mikil og viðvarandi.

Barnafatnaður ber 25,5% virðisaukaskatt, á meðan flest matvæli bera 7%. Hagkaup bendir á að það sé allra hagur að fella niður álögur á barnafatnaði eða lækka þær til samræmis við aðrar nauðsynjavörur. Tekjutap ríkissjóðs af þessari niðurfellingu fengist til baka með beinum og óbeinum hætti. Íslendingar færu að versla minna erlendis og í auknum mæli í íslenskum verslunum „sem aftur skapar og tryggir störf.  Fólk í verslun nýtir laun til frekari neyslu. Verslunin stendur skil á opinberum gjöldum og þannig mætti halda áfram.“

Hagkaup telur upp nokkur lönd sem hafa afnumið virðisaukaskatt af barnafötum með góðum árangri, þ.á.m. Bretland. „Þar var virðisaukaskattur af fatnað fyrir börn undir 15 ára aldri lagður niður fyrir rúmum þremur áratugum. Verð á barnafatnaði er lágt í Bretlandi og í því felst mikil kjarabót fyrir barnafjölskyldur. Bretum kemur ekki til hugar að leggja virðisaukaskatt aftur á barnafatnað.“

Næstu tvær vikurnar lækkar Hagkaup verð á öllum barnafatnaði og skóm sem nemur helmingi  af álögðum virðisaukaskatti. Skatturinn verður þá sem svarar 12,25%. Þetta er afsláttur sem leggst á um 2.500 vörunúmer í barnastærðum. Hagkaup tekur fram að lækkunin verði alfarið á kostnað verslunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert