Vilja afnema ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum

Opnberir starfsmenn mótmæla hugmyndum ASÍ og SA í lífeyrismálum.
Opnberir starfsmenn mótmæla hugmyndum ASÍ og SA í lífeyrismálum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

ASÍ og Samtök atvinnulífsins telja að til að lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verði sjálfbært þurfi að afnema ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og að réttur til lífeyris opinberra starfsmanna þurfi að miðast við 67 ár í stað 65 ár.

Lífeyrisréttindin opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum markaði eru ólík. Í dag greiðir launamaður og launagreiðandi á almennum markaði samtals 12% af heildarlaunum í lífeyrissjóð á meðan ríkið og þeir sem starfa hjá því greiða 15,5%. Þetta hlutfall er 16% hjá þeim sem starfa hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum markaði tryggi launþegum 56% ævitekna í mánaðarlegan lífeyri við starfslok, en þetta hlutfall er 76% hjá hinu opinbera.

Þrátt fyrir að ríkið greiði hærra iðgjald í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna er sjóðurinn ekki sjálfbær. Tryggingafræðileg staða A-deildar LSR var neikvæð um 13,2% í árslok 2009 en það þýðir að það vantar 51 milljarð í sjóðinn. Staða A-deildar Lífeyrissjóðs sveitarfélaga var á sama tíma neikvæð um 10,2%, en þar vantar 10,3 milljarða til að hann geti staðið undir skuldbindingum.

Í árslok 2009 vantaði 392 milljarða í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga) og 43 milljarða í B-deild Lífeyrissjóðs sveitarfélaga.

Lögin kveða á um að ef halli er á A-deild LSR verði ríkissjóður að bregðast við því með því að greiða hærra iðgjald. Lögin heimila reyndar að sjóðurinn sé rekinn með halla í tiltekinn tíma, en á endanum verður að hækka iðgjaldið. Engin slík ríkisábyrgð er á lífeyrissjóðum á almennum markaði og því hafa þeir á síðustu árum gripið til þess ráðs að skerða réttindi sjóðsfélaga til að koma á samræmi milli skuldbindinga og réttinda.

ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á jöfnun lífeyrisréttinda í kjaraviðræðum. Þeirra meginkrafa er að lífeyrissjóðakerfið sé samræmt og að það sé sjálfbært. Til að ná þessum markmiðum séu tvær leiðir, að kerfi opinberra starfsmanna færist á sjálfbæran grunn sem verði sambærilegur og á almenna markaðinum. Hin leiðin er að lífeyrisréttindi á almennum markaði þróist að réttindakerfi opinberra starfsmanna, en það er krafa ASÍ, að því er framkemur í sameiginlegum minnisblaði ASÍ og SA um lífeyrismál.

Í minniblaðinu segir að áður en fulltrúar atvinnurekenda taki afstöðu til kröfu ASÍ um jöfnun réttinda upp á við sé nauðsynlegt að fá yfirsýn yfir hvort sjálfbærni í lífeyrismálum opinberra starfsmanna verði að veruleika innan fyrirsjáanlegs tíma.

Sjálfbærni kalli á að inngreiðslum í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verði hætt og tryggingafræðilegur halli vegna áfallinna réttinda verði gerður upp. Þá þurfi réttur opinberra starfsmanna til lífeyris í A-deild að miðast við 67 ár líkt og í almennu sjóðunum. Afnema þurfi ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Ennfremur þurfi lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna að ávinnast með aldurstengdri ávinnslu í stað jafnri ávinnslu óháð aldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert