ESA stefnir Íslandi

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn þar sem  viðhlítandi ráðstafanir vegna hávaða á vegum hafa ekki verið gerðar eins og áskilið er í hávaðatilskipuninni.

Fram kemur á vef ESA, að tilgangur hávaðatilskipunarinnar sé að móta sameiginlega evrópska nálgun í að draga úr skaðlegum áhrifum umhverfishljóða. Í þessu samhengi taki tilskipunin sérstaklega til hávaða á vegum.

Tilskipunin skapi ramma sem stjórnvöld þurfi að nota til þess að bregðast sem best við vandamálum tengdum hávaða frá samgöngum. Helstu úrræðin sem stjórnvöld hafi til þess að bregðast við þessum vanda samkvæmt tilskipuninni eru svokölluð hávaðakort, sem sýna hávaða á ákveðnum svæðum, og aðgerðaráætlanir, sem hafa það markmið að stýra og draga úr hávaða og óæskilegum áhrifum hans.

Samkvæmt tilskipuninni átti Ísland að vera búið að teikna hávaðakort fyrir þá vegi landsins þar sem meira en sex milljónir ökutækja fara um á hverju ári fyrir 30. júní 2007. Segir ESA, að slík kort séu nauðsynleg til þess að greina vandamál tengd hávaða. Á grundvelli þeirra átti Ísland einnig að hafa útbúið aðgerðaráætlanir fyrir 18. júlí 2008.  

Ísland hafi ekki uppfyllt þessar skyldur sínar samkvæmt hávaðatilskipuninni.

ESA sendi Íslandi áminningarbréf vegna þessa máls í maí 2010. Í kjölfarið sendi stofnunin Íslandi rökstutt álit í október 2010 þar sem Íslandi var veittur tveggja mánaða frestur til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við tilskipunina. Þar sem Ísland hafi ekki enn staðið við skuldbindingar sínar hafi ESA ákveðið að stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert