Milljarðasamningur um rafbíla

Range Rover bílarnir verða með rafknúnum drifbúnaði frá Liberty Electric …
Range Rover bílarnir verða með rafknúnum drifbúnaði frá Liberty Electric Cars í Englandi. www.nle.is

Íslenska fyrirtækið Northern Lights Energy (NLE) hefur samið við Liberty Electric Cars í Oxford í Englandi um sölu á 150 rafknúnum Range Rover jeppum á Norðurlöndum á næstu fjórum árum. Samningurinn hljóðar upp á 24 milljónir punda (nærri 4,5 milljarða ÍKR). 

NLE kannar einnig möguleika á uppsetningu samsetningarverksmiðju fyrir drifbúnað rafknúinna strætisvagna hér á landi. Verksmiðja af því tagi gæti skapað um 800 störf auk afleiddra starfa.

Sighvatur Lárusson, framkvæmdastjóri Even hf. sem er dótturfyrirtæki NLE, staðfesti að NLE hafi samið um sölu Range Rover-bílanna. Hann sagði að Liberty hafi þróað drifbúnað rafbíla og setji hann í Range Rover bíla. Sighvatur sagði að NLE hafi samið um að annast sölu 150 bíla á Íslandi, í Færeyjum og Skandinavíu á næstu fjórum árum.

Í breskri frétt kemur fram að samingurinn sé sá stærsti sem Liberty Electric Cars hefur gert og sé metinn að andvirði 24 milljóna sterlingspunda, sem er um 4.465 milljónir króna. Stefnt er að því að fyrsti bíllinn komi til Íslands í sumar og verði hér til sýnis í kringum 17. júní.

Sighvatur sagði að NLE geti ráðið því í hvaða gerðir af Range Rover búnaðurinn verður settur. Hann sagði að langdrægi rafknúnu jeppanna verði um 320 km á hverri rafhleðslu. Bílarnir eru mjög aflmiklir og aðeins um 7 sekúndur að ná 100 km hraða.   

„Í upphafi settu þeir jafn stóra mótora að framan og að aftan. Síðan minnkuðu þeir mótorana að framan því annars var ekki hægt að taka af stað öðru vísi en að bílarnir spóluðu. Það er svo geðveikur kraftur í rafbílunum,“ sagði Sighvatur.

Ekki er búist við mikill sölu bílanna hér á landi, að minnsta kosti ekki til að byrja með, að sögn Sighvats. Hann sagði að Range Rover bílar seljist ekki í stórum stíl nú hér eins og var fyrir hrun. 

Í Danmörku kostar hefðbundinn Range Rover á bilinu 48-65 milljónir íslenskra króna. Rafbíllinn kemur líklega til með að kosta sem samsvarar um 25-30 milljónum. Reiknað er með að bíllinn verði á svipuðu verði og hefðbundinn Range Rover í Noregi.

Verðið ræðst mikið af  skattlagningu í hveru landi fyrir sig. Sighvatur nefndi t.d. að í Noregi séu rafbílar ekki skattlagðir. 

Kanna samsetningarverksmiðju á Íslandi

NLE hefur einnig gert samkomulag við Liberty Electric Cars (LEC) um að kanna möguleika á að setja upp hér á landi samsetningarverksmiðju fyrir rafknúinn drifbúnað rúta og strætisvagna. 

LEC hefur þegar samið um sölu á slíkum búnaði í 10.000 strætisvagna í Kína.  Viðræður standa yfir um þessa verksmiðju. Sighvatur sagði að um risastórt verkefni sé að ræða. Samningurinn milli LEC og Kínverja hljóðar upp á um 90 milljarða ÍKR og spannar fimm ár.

Verksmiðjan mun skapa meira en 800 ný störf auk fjölda afleiddra starfa. 

Sighvatur sagði að Íslendingar eigi í samkeppni við Búlgara um uppsetningu verksmiðjunnar. Þegar hefur verið rætt við Reykjanesbæ og fleiri um staðsetningu verksmiðjunnar. 

Frétt NLE um samsetningarverksmiðjuna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert