Kannar afstöðu lesenda til Icesave

Frá Icesave-kosningunum á síðasta ári.
Frá Icesave-kosningunum á síðasta ári. Kristinn Ingvarsson

Hátt í tvö þúsund manns hafa tekið afstöðu til Icesave-laganna á bandarísku bloggsíðunni Planet Money. Baldur Héðinsson, sem vinnur hjá fjölmiðlinum National Public Radio, eða NPR, skrifaði pistil á síðunni þar sem hann spyr lesendur hvort hann eigi að kjósa með eða á móti. Tæp 73% svara neitandi.

Baldur lauk nýlega doktorsgráðu í stærðfræði frá Boston University. Hann kveðst hafa ákveðið að vinna hjá NPR til að læra þáttagerð í útvarpi. National Public Radio, sem er ríkisútvarp Bandaríkjamanna, framleiðir meðal annars hinn vinsæla útvarpsþátt This American Life og er Planet Money afsprengi hans. Á síðunni er fjallað um efnahagsmál á „mannamáli“, eins og Baldur kemst að orði.

Kosningin verður opin á netsíðunni í um viku, að sögn Baldurs. Hann segir að niðurstaðan kunni að hafa áhrif á afstöðu sína, en ekki ráða henni. „Hún mun hafa einhver áhrif á hvernig ég kýs og einnig athugasemdirnar, en ég er ekki búinn að selja atkvæði mitt,“ segir Baldur og hlær. „En ég kýs og ætli ég muni ekki gera grein fyrir því af hverju ég kaus þannig.“

Baldur segir fróðlegt að sjá hvernig hlutlausir Bandaríkjamenn meta stöðuna sem Íslendingar eru í. „Það er eitt að hlusta á umræðuna á Íslandi og annað að heyra hvernig fólk sem hefur ekki verið í ölduganginum heima líst á kostina. Af því Ísland er svo lítil þjóð þá verða svona tölur oft ógnvænlegar, þetta eru háar fjárhæðir fyrir hvern sem er og sérstaklega fyrir svona litla þjóð. Þannig að það er gaman að sjá hvernig Bandaríkjamenn myndu bregðast við ef þeir væru í sömu sporum og við.“

Pistill Baldurs á Planet Money.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert