Leggja þarf allar upplýsingar á borðið

Ólafur Þór Gunnarsson.
Ólafur Þór Gunnarsson.

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag, að leggja þurfi allar upplýsingar á borðið varðandi ráðningu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. 

Sagði Ólafur Þór, í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um úrskurð kærunefndar jafnréttismála, að sú yfirlýsing, sem kom frá forsætisráðuneytinu í gær, hafi veitt einhverjar upplýsingar en ekki þær sem þingmenn þurfi að hafa.

„Hvernig í ósköpunum gat stigakerfið, sem notað var, verið þannig, að það er hægt að komast af hálfu kærunefndarinnar að allt annarri niðurstöðu," sagði Ólafur. 

Hann sagðist ekki geta metið það af þeim gögnum, sem liggja fyrir, að það hafi verið ætlunin að velja á milli einstaklinga á grundvelli kynferðis. 

„Mann grunar nánast að það hafi verið ætlunin með einhverju móti að tryggja, að þessi tiltekni einstaklingur, óháð kyni, fengi ekki djobbið og kem þá kannski inn á þessa athugasemd (forsætisráðherra) hér áðan að um var að ræða pólitískan samstarfsmann. Maður veltir því fyrir sér hvort starfsmenn í ráðuneytinu séu orðnir svo miklir „kóarar" í pólitískum rétttrúnaði að þeir fari þessa leið," sagði Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert