Setja á fót starfshóp um skipulag við Hörpu

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa. mbl.is/RAX

Borgarráð samþykkti í dag tillögu Jóns Gnarr borgarstjóra um að stofnaður verði fimm manna stýrihópur á vegum Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna sem er ætlað að endurskoða skipulag við höfnina frá Grandagarði að tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.

Hópnum er ætlað að taka afstöðu til legu og útfærslu Mýrargötu. Hann á einnig að taka afstöðu til fyrirliggjandi áætlana, marka sýn til framtíðar, undirbúa endurskoðun skipulagsvinnu á svæðinu og hafa yfirumsjón með framgangi hennar. Tillögur að endurskoðuðu skipulagi svæðisins á að vinna í samráði við hafnarstjórn, skipulagsráð og umhverfis- og samgönguráð, auk hagsmunaaðila og íbúa. Með stýrihópnum starfa skipulagsstjóri, hafnarstjóri og sviðsstjóri umhverfis- og samgöngusviðs ásamt samgöngustjóra. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en 1. september 2011.

Samþykkt var að skipa eftirtalda í hópinn: Hjálmar Sveinsson, formaður, Páll Hjaltason, Hólmfríður Ósman Jónsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Júlíus Vífill Ingvarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert