Fréttaskýring: Pattstaða um fiskveiðistjórnun

Við höfnina í Grindavík. Óvissa er um hvort tekst að …
Við höfnina í Grindavík. Óvissa er um hvort tekst að ná lendingu í deilum um drög að nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnun. mbl.is/RAX

Unnið er að því meðal ráðherra og í samráðsnefnd stjórnarþingmanna að finna flöt á nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnun, en drög að því liggja fyrir. Breitt bil hefur verið á milli einstakra þingmanna í nefndinni og talaði einn viðmælenda blaðsins um pattstöðu í því sambandi.

Formenn stjórnarflokkanna hafa komið að þessu starfi á fundum með nefndinni í vikunni til að reyna að leysa úr ágreiningi.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðað til þessara funda. Alls óvíst er hvort og þá hvenær nýtt frumvarp verður lagt fram á þingi, en það yrði á forræði Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra.

Hann hefur sagt að hann vilji sjá blandaða leið samninga við aflamarkshafa og potta, sem nýta á til byggðaúthlutunar og línuívilnunar svo dæmi séu tekin. Sáttanefnd skilaði skýrslu sinni í september og var meirihluti starfshópsins sammála um að mæla með slíkri leið. Síðan hefur verið unnið að gerð frumvarpsins í sjávarútvegsráðuneytinu og síðasta tímasetning um lok þeirrar vinnu var í endaðan febrúar. Sá tími er liðinn fyrir nokkru og óvissan er mikil.

Ólína og Björn Valur á öndverðum meiði

Hópur sex þingmanna stjórnarflokkanna hefur komið að þessu starfi, en þar sýnist sitt hverjum. Hermt er að Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vilji ganga lengra í innköllun aflaheimilda og fyrningu en aðrir nefndarmenn. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og skipstjóri, er hins vegar nefndur fyrstur meðal þeirra sem vilja fara hægar í breytingar á því kerfi sem verið hefur við lýði síðustu áratugi. Atli Gíslason, alþingismaður og áður formaður sjávarútvegsnefndar, hefur ekki tekið þátt í fundum nefndarinnar síðan hann sagði sig úr þingflokki VG á mánudag.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild. Markmiðin eru meðal annars að skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar. Einnig að leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili. Það mátti því ljóst vera að verkefnið yrði ærið og að erfitt yrði að sætta þessi sjónarmið þar sem miklir og ólíkir hagsmunir togast á.

Sáttanefndin skilaði skýrslu sinni ári síðar en ráð var fyrir gert í stjórnarsáttmálanum. Síðan hefur ekkert formlegt samráð verið við hagsmunaaðila, eða í rúma sex mánuði. Einn viðmælanda blaðsins sagði að málið væri stærra en svo að það yrði keyrt í gegn án náins samráðs alla leið og þá við marga aðila.

15% í potta á 15 árum

Meðal annars er hart deilt um hversu mikið á að fara í fyrrnefnda potta. Ein hugmyndin er að í þá fari 15% af öllum heimildum, en nú þegar fer ákveðið hlutfall í sambærilega potta, alls 16.490 þorskígildistonn og eru strandveiðar þá meðtaldar. Nýtingarsamningarnir yrðu þróaðir á 15 ára samningstíma með framlengingarákvæði um sex ár. Fyrsta árið færu 3% til viðbótar því sem nú er til þessarar ráðstöfunar og er þá reiknað með aukningu kvóta næsta haust.

Þannig gæti orðið um litla skerðingu í tonnum talið að ræða, en hins vegar litla hlutdeild í væntri aukningu. Útgerðarmenn hafa ítrekað bent á að þeir hafi tekið á sig skerðingar vegna ástands fiskstofna og eigi því að njóta þess verði hægt að auka kvóta á næstu misserum.

Forleiguréttur ríkisins

Framsal aflaheimilda yrði verulega takmarkað með nýju kerfi og hugsanlega verður þar ákvæði um forleigurétt ríkisins þannig að ríkið geti gengið inn í samninga um framsal. Sömuleiðis verða miklar takmarkanir á möguleikum til veðsetningar, en þó þannig að veðsetning sem er til staðar renni út á sínum samningstíma.

Veiðigjald verður hækkað samkvæmt drögum að nýju frumvarpi. Ýmist hefur verið rætt um tvöföldun í því sambandi og skýrari línur eða að taka ákveðið krónugjald á hvert tonn

Rætt um að dusta rykið af tillögum um leigu á heimildum

Fyrstu drög frumvarpsins fóru fyrir nokkru til samráðsnefndar þingmanna stjórnarflokkanna. Þar hafa ítrekað verið gerðar athugasemdir við einstök atriði og er unnið að því að finna sátt um margvísleg deiluatriði.

Meðan þessi pattstaða er uppi hefur sú hugmynd komið fram að dusta rykið af tillögum sjávarútvegsráðherra frá síðasta hausti, en hann lagði þá til að kvóti í þorski og fleiri tegundum yrði aukinn um 10 þúsund tonn. Þær heimildir færu á leigumarkað, sem hefur nánast verið botnfrosinn á þessu fiskveiðiári. Þannig myndi ríkið fá hátt í þrjá milljarða í tekjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert