Verið að grafa undan vægi SÞ

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tekur undir með Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og formanni VG, að Vinstri grænir styðji ekki þá ákvörðun að NATO taki við stjórn aðgerða í Líbíu. Verið sé að grafa undan vægi Sameinuðu þjóðanna með því að nýta „loðnar yfirlýsingar“ Öryggisráðsins til hernaðaraðgerða.

„Í fyrstu virðist hinn fjarlægi veruleiki vera óskaplega einfaldur en þegar betur er að gáð er nú myndin flóknari en svo að það sé hægt að lækna öll mein með hernaðarárás. Ég tel það vera mjög vafasamt að hernaðarbandalagið NATO taki sér þetta vald," sagði Ögmundur við mbl.is.

Hann segir sér ekki hafa verið kunnugt um að fulltrúi Íslands innan NATO myndi samþykkja þá ákvörðun að bandalagið tæki að sér stjórnun aðgerða í Líbíu.

„Ég hef ekki setið neinn fund þar sem þetta var rætt með þessum hætti," segir Ögmundur sem býst við að málið verði rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í fyrramálið.

Utanríkismálanefnd Alþingis hefur verið boðuð til fundar kl. 20:30 í kvöld þar sem málefni Líbíu verða rædd og aðkoma NATO í aðgerðum þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert