Skattar hækkuðu lánin um 18,3 milljarða

Hækkun skatta hefur áhrif á vísitölu neysluverðs.
Hækkun skatta hefur áhrif á vísitölu neysluverðs. mbl.is/Ómar

Verðtryggð lán íslenskra heimila hækkuðu um 18,3 milljarða vegna áhrifa skattahækkana á lánin. Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur alþingismanni.

Margrét spurði hversu mikið verðtryggð lán íslenskra heimila hafi hækkað á tímabilinu frá 1. febrúar 2009 til 1. febrúar 2011 vegna skattahækkana og annarra aukinna álaga af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs neysluverðs.

„Áhrif skattahækkana á vísitölu neysluverðs eru um 1,50% frá 1. febrúar 2009 til 1. febrúar 2011 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Það þýðir að verðtryggð lán íslenskra heimila hækkuðu sem því nemur að nafnvirði. Í febrúar sl. voru verðtryggð lán heimilanna um 1.220 milljarðar kr. og því nemur hækkunin að nafnvirði um 18,3 milljörðum kr. á tímabilinu. Almenn vörugjöld eru ekki með talin þar sem Hagstofan greinir áhrif þeirra ekki með beinum hætti í vísitölunni,“ segir í svarinu.

Verðtryggð lán fyrirtækja námu um 205 milljörðum þann 1. janúar og því leiddu skattahækkanir til þess að þau hækkuðu um 3 milljarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert