Það er alls ekki stjórnleysi

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

„Það er sko alls ekkert stjórnleysi," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag.

Jóhanna var að svara fyrirspurn frá Sigurði Kára Kristjánssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem spurði Jóhönnu hvað fælist í orðinu stjórnleysi.  Sagði hann að það hefði verið átakanlegt að fylgjast með ríkisstjórninni síðustu daga eða svo og taldi hann upp ýmis mál því til sönnunar. 

Jóhanna sagði að orðið stjórnleysi væri ekki til í orðabók ríkisstjórnarinnar, sem hefði unnið mjög kappsamlega við það undanfarin tvö ár að hreinsa upp eftir íhaldið.

Sagði Jóhanna að ríkisstjórnin virtist hafa mörg líf, standast allar áraunir og ganga vel upp hina bröttu brekku sem hún þurfti að leggja á þegar hún tók við efnahags- og atvinnulífinu í rúst eftir margra ára stjórn Sjálfstæðiflokksins.

Jóhanna sagði að það væri meðal annars að ríkisstjórnin myndi í dag halda mikilvægan fund með aðilum vinnumarkaðarins en eitt mikilvægasta verkefnið nú væri að koma kjarasamningum í höfn og þar hefði verið unnið ötullega af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Sagði Jóhanna að sjá mætti þann árangur, sem ríkisstjórnin hefði náð á síðustu tveimur árum í ýmsum efnahagsstærðum. Verðbólgan væri með því minnsta sem þekktist, stýrivextir hefðu sjaldan verið lægri, atvinnuleysi hefði minnkað þótt það væri enn of hátt. 

Sigurður Kári sagðist sjaldan eða aldrei hafa heyrt nokkurn forsætisráðaherra haldinn jafn mikilli afneitun og Jóhanna væri haldi, því við öllum blasti að hér á landi ríkti stjórnleysi. Jóhanna væri ekki í neinum tengslum við fólkið í landinu og alls ekki sína eigin ráðherra þar sem hver höndin væri upp á móti annarri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert