Hugsanlega fornleifar frá landnámsöld

Útlit er fyrir að frekari tafir verði á því að Landeyjahöfn verði opnuð fyrir siglingar Herjólfs og mun hún ekki opna um helgina, eins og stóð til. Ástæða þess er sú að við dýpkun hafnarinnar fundust fornmunir, sem eru jafnvel taldir vera frá landnámsöld.

„Okkur sýnist þetta vera stórmerkilegur fundur en á óvæntum stað og hann þarf frekari rannsókna okkar við,“ segir Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins,í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Stofnunin hefur farið fram á það við Siglingastofnun að Landeyjahöfn verði lokað um ótilgreindan tíma, á meðan fornleifafræðingar rannsaka betur það sem kom upp með sanddælingu dýpkunarskipsins Skandia í vikunni. Þá komu í ljós mannabein, timburfjöl sem talin er vera úr skipi, silfurarmband og gullhálsmen, auk fleiri fornmuna. Telur Kristín að munirnir geti verið úr víkingaskipi frá landnámsöld, jafnvel með þræla Hjörleifs um borð. Þá útilokar hún ekki þann möguleika að um muni úr gullskipinu Het Wapen van Amsterdam geti verið að ræða.

Sigurður Áss Grétarsson hjá Siglingastofnun segir það hafa verið sjálfsagt mál að verða við beiðni Fornleifaverndar um að hafa Landeyjahöfn lokaða á meðan fornleifafræðingar athafna sig.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að fornleifafundurinn komi Eyjamönnum í opna skjöldu. „Við höfum orðið að sýna töfinni í Landeyjahöfn mikla þolinmæði í vetur og þó að við skiljum það að sjálfsögðu að fornleifafræðingar þurfi að athafna sig þarna, getum við ekki sætt okkur við að þetta komi til með að valda enn frekari töfum á opnun Landeyjahafnar, lífæðar samfélagsins,“ sagði Elliði. 

Munirnir, sem fundust í Landeyjahöfn, verða almenningi til sýnis í Þjóðminasafninu í dag á milli klukkan 11 og 17. Aðeins verður um þennan eina tíma að ræða, því senda þarf gripina úr landi til nánari skoðunar og aldursgreiningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert