Mikið um einkennilegar fréttir

Frétt um fornleifafund í Landeyjahöfn reyndist vera aprílgabb.
Frétt um fornleifafund í Landeyjahöfn reyndist vera aprílgabb. mbl.is/Árni Sæberg

Það hefur verið mikið um einkennilegar fréttir í flestum ef ekki öllum fréttamiðlum landsins í dag, 1. apríl. Morgunblaðið og mbl.is létu sitt ekki eftir liggja í því að reyna að láta landsmenn hlaupa apríl.

Í Morgunblaðinu og á mbl.is var greint frá því að fornleifar, sem væru hugsanlega frá landnámsöld, hefðu fundist við dýpkun Landeyjahafnar. Sagt var frá því að útlit væri fyrir að frekari tafir yrðu á því að Landeyjahöfn yrði opnuð fyrir siglingar Herjólfs. Lesendur þurfa engu að kvíða enda um aprílgabb að ræða.

Fengu frítt inn á safnið

„Það var töluvert mikið spurt um þessa muni, og fólk hafði bara gaman af þessu. Þeir sem komu og spurðu fengu frítt inn á safnið eða frímiða til að koma síðar. Héðan fór enginn tómhentur heim," segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður um þá sem hlupu apríl vegna fréttar Morgunblaðsins um fornleifarnar úr Landeyjahöfn, sem áttu að vera til sýnis í safninu í dag.

„Starfsmaður okkar í afgreiðslunni, Soffía Pétursdóttir, tók mjög vel á móti öllum sem spurðu um gripina og allir fóru glaðir heim," segir Margrét en Morgunblaðið þakkar henni og öllum öðrum við aðstoðina við aprílgabbið; Siglingastofnun, Elliða Vignissyni bæjarstjóra og ekki síst Kristínu Huld Sigurðardóttur, forstöðumanni Fornleifaverndar ríkisins, sem reyndar á afmæli í dag, 1. apríl, og það er ekkert gabb.

Orkulausnir og tónlistarernir

Einnig var greint frá því í Morgunblaðinu og á mbl.is að framkvæmdaaðilar Eagles tónleikanna hefðu ætlað að selja 50 miða á tónleikana á 5000 kr. stykkið. Það reyndist ekkert vera hæft í þessum fréttum, því miður fyrir unnendur hljómsveitarinnar.

Síðast en ekki síst sagði mbl.is frá íslenska sprotafyrirtækinu GSM Energy Solutions sem átti að hafa hannað nýjan hugbúnað í snjallsíma sem gæti sparað eldsneyti í bifreiðum um fimmtung. Fréttin reyndist vera uppspuni frá rótum.

Allt frá VIP-pössum til skuldhreinsivéla

Aðrir fjölmiðlar létu svo sannarlega ekki sitt eftir liggja í því að reyna að blekkja landann með furðufréttum. Fréttaframboðið var töluvert og hér verður tæpt á nokkrum þeirra.

Í hádegisfréttum RÚV var frétt um að fornminjar hefðu fundist í nýju gjánni sem myndaðist í Almannagjá á Þingvöllum. Voru munirnir taldir vera frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Einnig var fjallað um fundinn í kvöldfréttum Sjónvarps, sagt var að þar hefði fundist mikið af dýrabeinagrindum sem bendi til blóts.

Fréttablaðið bauð upp á trippaeistu á Lækjartorgi síðdegis og á vef Vísis kom fram að Atlantsolía sæti uppi með heilan skipsfarm af bensíni frá Líbíu sem félagið gæti ekki selt vegna viðskiptabanns á Líbíu. Af þeim sökum ætlaði fyrirtækið að gefa íslenskum bifreiðaeigendum farminn.

Stöð 2 greindi frá því í kvöldfréttum að Vilhjálmur Bretaprins hefði verið steggjaður á Íslandi.

DV sagði frá því að stuðmaðurinn Valgeir Guðjónsson hefði tryggt sér rekstrarsamning við alþjóðlegu kaffihúsakeðjuna Starbucks.

Vestfirski fréttavefurinn Bæjarins besta sagði frá því í dag að Jóhannes Karl Guðjónsson, atvinnumaður í knattspyrnu hjá 2. deildar liðinu Huddersfield í Englandi, og sonur Guðjóns Þórðarsonar þjálfara BÍ/Bolungarvíkur, væri genginn til liðs við BÍ/Bolungarvík.

Feykir sagði frá því, að Mjólkursamlag KS á Sauðárkróki ætlaði að kynna nýjan ost í dag: Heimasætubita, sem búinn væri til úr brjóstamjólk.

Á siglfirdingur.is var greint frá því að gull hefði fundist í Héðinsfjarðargöngum og á vef Skógræktar ríkisins var sagt frá gaupu sem hefði fundist í Þjórsárdalsskógi.

Austurglugginn sagði frá því að bandaríski glímukappinn Hulk Hogan væri á Reyðarfirði til að setja hina árlegu Íslandsglímu og Skessuhorn sagði m.a. frá því að Landsbankinn hefði sett upp pítsusjálfsala í tilefni af því að bankinn hefur eignast Domino's pítsur.

Bandaríska rokkhljómsveitin Eagles var fleirum hugleikin en Morgunblaðinu því Vikudagur greindi frá því að hljómsveitin ætlaði að halda tónleika í Hofi á Akureyri og átti miðasala að hefjast í dag.

Margar grunsamlegar fréttir voru á vef Víkurfrétta í dag, þar á meðal, að Ásgeir Davíðsson, oft kenndur við Goldfinger, hefði keypt Festi. Í tilefni dagsins átti að bjóða upp á listdanssýningu í dag og voru allir bæjarbúar eldri en 18 ára boðnir velkomnir.

Þá bauð raftækjaverslunin ELKO til sölu skuldhreinsivélina WESAVEU, en hún kostaði aðeins 999.995 kr. á tilboði. Vélin var sögð hreinsa skuldir upp að allt að 20 milljónir króna í einu. Hún var með þrjár hreinsistillingar:  erlent, verðtryggt eða skammtíma.

Fyrirtækið GSM Energy Solutions er ekki til.
Fyrirtækið GSM Energy Solutions er ekki til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert