Reyna að spinna þráðinn

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri og Vilmundur Jósefsson formaður SA bíða eftir …
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri og Vilmundur Jósefsson formaður SA bíða eftir að komast inn í sjávarútvegshúsið til fundar við Jón Bjarnason. mbl.is/Kristinn

„Við erum að reyna að spinna einhvern þráð, reyna að láta ekki slitna,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, eftir fund forystu SA með sjávarútvegsráðherra.

Vilhjálmur sagðist ekki geta greint efnislega frá fundinum með Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra en tók fram að hann virtist einnig vera að reyna að láta þráðinn ekki falla niður. 

Samtök atvinnulífsins hafa gert það að skilyrði fyrir frágangi kjarasamninga að óvissu um rekstrarskilyrði fyrirtækja í sjávarútvegi verði eytt. Hann sagði í gær að sú afstaða væri óbreytt. „Við verðum að fá lendingu í þetta.“

Stutt á milli í launamálum

Vilhjálmur sagði að ágætlega hefði gengið í viðræðum við ASÍ í dag. Taldi hann að búið væri að skila til stjórnarráðsins sameiginlegum tillögum ASÍ og SA um breytingar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um efnahagsramma kjarasamninganna.

„Þetta snýst fyrst og fremst um atriði sem geta orðið til þess að við trúum því að fjárfestingar séu að fara í gang. Einnig að ganga frá hverju við getum búist við um lækkun atvinnutryggingargjalds,“ sagði  Vilhjálmur þegar hann var spurður um mikilvægustu breytingar á plaggi ríkisstjórnarinnar.

Vilhjálmur sagði að „þokkalega stutt“ væri orðið á milli SA og ASÍ í launamálum en vildi ekki fara efnislega í þau atriði, að svo stöddu.

Hann sagði stefnt að því að vinna við útfærslu samninganna hæfist á morgun.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, kemur til fundar í sjávarútvegsráðuneytinu.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, kemur til fundar í sjávarútvegsráðuneytinu. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert