Engin gögn um að fórnarlambi hafi verið hótað

mbl.is/GSH

Sveinn Andri Sveinsson, hrl., sem var verjandi manns sem Hæstiréttur sýknaði af fólskulegri líkamsárás í liðinni viku, segir að þótt héraðsdómur hafi gengið út frá því að fórnarlambinu hafi verið hótað, liggi ekkert fyrir um að svo hafi verið.

Ekkert hafi verið lagt fram eða bókað um hótanir við aðalmeðferðina og hann sem verjandi meints árásarmanns ekkert fengið að vita af meintum hótunum fyrir aðalmeðferð málsins. Dómur Hæstaréttar sé í samræmi við fordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Engum öðrum um að kenna

Skjólstæðingur Sveins Andra var dæmdur í 2½ árs fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur. Fórnarlambið hafði nafngreint árásarmanninn sem hinn ákærða í málinu en þegar kom að aðalmeðferð málsins neitaði hann að bera vitni og taldi héraðsdómur að engin önnur skýring gæti komið til greina en að hann óttaðist það sem gæti hlotist af ef hann stæði við fyrri skýrslur sínar. Taldi dómurinn að engum öðrum en ákærða gæti verið um það að kenna. Þá hefði framburður árásarmannsins verið óstöðugur og ótrúverðugur og því var slegið föstu, út frá gögnum málsins, að hann hefði fengið kunningja sinn til að veita sér falska fjarvistarsönnun.

Í dómi Hæstaréttar er á hinn bóginn bent á að ekki verði séð af gögnum málsins að fórnarlambið hafi gefið skýringar á því hvers vegna hann neitaði að gefa skýrslu fyrir dómi, þrátt fyrir vitnaskyldu. Hæstiréttur bendir á að samkvæmt lögum um meðferð sakamála skuli dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu. Tilteknar undantekningar eru frá þessu ákvæði en Hæstiréttur taldi þær ekki eiga við og væri þá haft í huga að verjanda gafst ekki kostur á að spyrja vitnið um þýðingarmikil atriði. Þá sagði Hæstiréttur að rannsókn lögreglu hefði verið áfátt í ýmsum atriðum.

Sveinn Andri segir að jafnvel þótt gengið væri út frá því að fórnarlambinu hefði verið hótað, þá væri langsótt að ætla að hótanirnar hefðu orðið til þess að hann myndi ákveða að tjá sig alls ekki. Það sé ekki nýtt að vitnum sé hótað en þá dragi þau yfirleitt framburð sinn til baka og beri á annan veg en hjá lögreglu. „En það er langsótt að gefa sér það að þeir sem hótuðu honum hafi verið svo útspekúleraðir í íslensku sakamálaréttafari að þeir hafi kveikt á því að þetta gæti orðið til þess að ekki yrði byggt á framburði hans hjá lögreglunni,“ segir hann.

Ef grunur leiki á að þjarmað hafi verið að vitnum hafi saksóknari iðulega látið verjendur vita til að hægt sé að grípa til ráðstafana, s.s. með því að láta ákærðu víkja úr réttarsal. Ekkert slíkt hafi verið gert í þessu máli.

Sveinn Andri segir þó aðalatriðið í málinu að Hæstiréttur hafi talið að verið væri að brjóta gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi mótað þá reglu að ef svokallað lykilvitni í sakamáli gefur ekki skýrslu fyrir dómi, þá gangi ekki upp að byggja sakfellingu á framburði vitnisins hjá lögreglu, þar sem verjandi hafi ekki haft tök á að spyrja viðkomandi vitni. Gölluð lögreglurannsókn hafi svo enn frekar veikt málatilbúnað ákæruvaldsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert