Ísland stefnir í greiðsluþrot

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir

Íslenska ríkið stefnir að óbreyttu í greiðsluþrot, að mati Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar. Þór er ósammála því stöðumati seðlabankastjóra að lausafjárstaða þjóðarbúsins hefði stórbatnað samfara auknum gjaldeyrisforða, enda sé sá forði fenginn að láni.

Eins og fram kom á fréttavef Morgunblaðsins í dag telur Már Guðmundsson seðlabankastjóri að  „aukinn forði, meiri stöðugleiki, framgangur áætlunar um afgang á ríkissjóði á komandi árum og uppkaup erlendra skulda ríkissjóðs á eftirmarkaði hafa ... orðið til þess að raddir um greiðsluþrot ríkissjóðs hafa þagnað“.

Þór er ósammála því að hættan á greiðsluþroti sé liðin hjá.

„Ég sé það ekki á tölunum. Gjaldeyrisforðinn er fenginn að láni. Það er það merkilegasta við ræðu Más í dag. Hann talaði um hversu mikill og öflugur gjaldeyrisforðinn væri orðinn. Hann er hins vegar fenginn að láni. Þannig að hann er ekkert öflugur og góður. Hann er peningur sem er fenginn að láni og þarf að greiða til baka. Hann virkar kannski sálrænt sem einhvers konar gjaldeyrisvarasjóður en honum er mjög auðvelt að eyða ef það þarf að styrkja gengi krónunnar... Þessar skuldatölur halda áfram í þá veru að mín skoðun hefur ekkert breyst, að við erum komin yfir eða að þeim þolmörkum skulda að við ráðum við að greiða þær,“ segir Þór.

- Stefnir Ísland í greiðsluþrot?

„Já. Með sama áframhaldi,“ segir Þór.

„Það sem menn gera er að viðurkenna að þeir standi ekki undir öllum þessum skuldum og endursemja um þær með afskriftum. Þetta þykir gríðarlega alvarlegt á Íslandi en er gert með reglubundnum hætti út um allan heim. Skuldastýringarfræðingar hjá Efnahags- og framfarastofnuninni í París sem ég hef rætt við segja að þetta sé orðin viðtekna leiðin sem verði að fara. Menn brenndu sig nógu illa í Suður- og Mið-Ameríku á 8. og 9. áratugnum við það að reyna að kreista hvern einasta eyri út úr blönkum þjóðum og stórskaða þannig samfélögin,“ segir Þór sem telur að „réttast væri að setja íslenska embættismenn til hliðar og fá erlenda sérfræðinga til þess að leggja mat á skuldastöðuna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert