Leggja þarf sundurlyndisfjandann að velli

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Ómar

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á ársfundi Seðlabankans í dag að brýnasta verkefni Íslendinga nú væri að leggja sundurlyndisfjandann að velli.

„Sagt er að í Svíþjóð sé ekki enn samhljómur um orsök bankakreppunnar og gengishrunsins sem þar varð árið 1992. Rannsóknarnefnd Alþingis stillti orsökum falls íslensku bankanna upp í 68 mismunandi atriðum án orsakasamhengis, án alþjóðlegs samanburðar og án greiningar á sögulegu samhengi. Sagt er um Argentínu að þar hafi bankakreppa breyst í viðvarandi stjórnarfars- og  efnahagskreppu því að samfélagið hafi aldrei komið sér saman um leiðina út. Sundurlyndisfjandinn á marga samherja á Íslandi og brýnasta verkefni okkar nú er að leggja hann að velli. Grunnstofnanir hvort sem  er ríkisstjórn, Alþingi eða Seðlabanki verða að þekkja sinn vitjunartíma, skilja að skyldan er sú að greina sameiginlega þjóðarhagsmuni og láta þá ráða í einu og öllu," sagði Árni Páll.

Hann sagði að málflutningur Seðlabanka Íslands til útskýringar á því sem aflaga fór að þessu leyti í aðdraganda hrunsins sé í fjötrum persónuvarnar þáverandi formanns bankastjórnar í tilraunum hans til að koma sök á aðra.

„Skylda bankans er að skila frjálsu og gagnrýnu fræðilegu mati á því af hverju mælikvarðar Seðlabankans á fjármálastöðugleika í landinu reyndust rangir. Meintar viðvaranir formanns bankastjórnar sem voru óskráðar og ótengdar mati á fjármálastöðugleika eru nú grunnur saksóknar gegn fyrrverandi forsætisráðherra. Getur slíkt verklag, jafnvel þótt það hafi verið viðhaft, nokkurn tíma talist réttmætt, faglegt og stofnuninni samboðið?" sagði Árni Páll.

Ræða Árna Páls Árnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert