Vitnar um veika forystu

Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.

Skortur á afdráttarlausri málafylgju í Icesave-kosningunni af hálfu forystumanna ríkisstjórnarinnar vitnar um veika stöðu þeirra, að mati dr. Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings. Hún segir skort á málafylgju formanns Sjálfstæðisflokksins einnig hafa veikt já-hliðina.

En hún sé kannski skiljanleg í ljósi þess hve lítils stuðnings já-hliðin virðist hafa meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Aðspurð um vísbendingar um góða kosningaþátttöku kveðst Stefanía vita um fjölda fólks sem hafi gert ráðstafanir til að geta greitt utankjörstaðaatkvæði.

„Góð kjörsókn bendir til þess að fólk lætur sig málið varða. Það er til dæmis frábrugðið stjórnlagaþingskosningunum þar sem þátttakan var lítil.“

- Hvað skýrir góða þátttöku?

„Það hafa greinilega flestir skoðanir á málinu og ætla að kjósa. Fólki finnst þetta skipta máli. Mér finnst það vera jákvætt. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra var þokkalega góð þátttaka þrátt fyrir að Steingrímur [J. Sigfússon] og Jóhanna [Sigurðardóttir] segðu kosninguna marklausa.

Núna hefur hins vegar verið rekin mjög góð kosningabarátta á báða bóga, myndi ég segja. Auðvitað er sumt áróðurskennt en margt hefur hins vegar verið líka verið mjög upplýsandi. Þá má merkja ýmsar nýjungar í kosningabaráttunni,“ segir Stefanía og vísar t.d. til óvenjulegra auglýsinga.

„Við höfum fram að þessu ekki vanist neikvæðum auglýsingum í kosningabaráttu. Mér finnst þetta líka hafa verið vel skipulagt. Þá hafa nýir einstaklingar komið fram á sjónarsviðið úr já- og nei-hópnum sem eiga ef til vill eftir að láta að sér kveða í stjórnmálunum.“

Lítið borið á stjórnmálamönnum

Stefanía víkur næst að kjörnum fulltrúum á alþingi.

„Annað sem er óvenjulegt við þessa kosningabaráttu er að stjórnmálamennirnir hafa nær algerlega haldið að sér höndum. Þeir hafa ekki beitt sér. Það vekur athygli í svona mikilvægu máli.“

- Hvað með þátt Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra?

„Ég held að það sé mikilvægt fyrir leiðtoga að veita leiðsögn. Um leið og það lá ljóst fyrir að þetta myndi fara í þjóðaratkvæði var mikilvægt að forystumenn ríkisstjórnarinnar beittu sér í málinu enda halda þau því fram að mjög mikilvægt sé fyrir efnahagslega framtíð landsins að samþykkja samninginn.

Því er það ábyrgðarlaust að beita sér ekki fyrir því að málið sé samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. En þessi taktík helgast af tvennu. Í fyrsta lagi vonast þau til þess að niðurstaða kosninganna breyti engu um stjórnarsamstarfið. Og í öðru lagi óttast þau að það veiki málstaðinn. Því eftirláta þau öðrum að tala máli ríkisstjórnarinnar.“

- Hvað finnst þér um þessa áhættufælni leiðtoganna í málinu?

„Þetta er augljóst veikleikamerki, að þau skuli ekki beita sér í máli sem þau telja jafn mikilvægt fyrir hagsmuni þjóðarinnar,“ segir Stefanía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert