Afgerandi vilji þjóðarinnar

Frá þingflokksfundi VG eftir hádegið í dag. Fundinum lauk skömmu …
Frá þingflokksfundi VG eftir hádegið í dag. Fundinum lauk skömmu fyrir klukkan þrjú. Mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er bara afgerandi vilji þjóðarinnar og í lýðræðisríki þá hlítum við þeim vilja,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum og Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir stundu, í Aðalstræti.

Ögmundur og Jón voru þá nýkomnir út af þingflokksfundi VG, sem fram fór eftir hádegið. Á fundinum var einfaldlega farið yfir stöðu mála að þeirra sögn.

„Já, mér finnst þetta bara mjög afgerandi og í sjálfu sér ágætt þegar svona afgerandi niðurstaða fæst í svona máli,“ sagði Jón Bjarnason, þegar hann var spurður hvað honum þætti um niðurstöðu gærkvöldsins.

- Eru þetta slæm tíðindi eða góð tíðindi?

„Þetta eru tíðindi, þetta er niðurstaða. Þannig bera að líta á það. Það eru ýmsir sem hafa haft orð á því að  þjóðin hafi verið klofin. Hafi hún verið klofin fyrir kosninguna þá er hún það ekki lengur. Nú er þetta lýðræðisleg niðurstaða og henni ber að framfylgja," segir Ögmundur.

- Má spyrja ykkur hvernig þið greidduð atkvæði í gær?


„Ég sagði það eftir að málið kom út af Alþingi að ég blandaði mér ekki inn í umræðuna á opinberum vettvangi. Það stendur eftir á líka, vegna þess að ég held að almennt eigi menn ekkert að vera að horfa í það hvað hver og einn gerði. Vegna þess að verkefnið er núna að horfa til þess að sameinast,“ segir Ögmundur.

Að svo búnu gekk Jón Bjarnason burt en spurður á göngu um atkvæði hans sagði hann: „Ég hef bara það sama að segja og Ögmundur. Ég blandaði mér ekki inn í þessa umræðu nema á Alþingi.“

- En núna eftir á?

„Þar greiddi ég atkvæði opinberlega. Það liggur fyrir," sagði Jón og gekk á braut.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert