Guðfríður Lilja sett af

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson. mbl.is/Kristinn

Þau tíðindi urðu á þingflokksfundi Vinstri-grænna í dag, að Guðfríði Lilju Grétarsdóttur var velt úr sæti formanns þingflokksins. Þetta var fyrsti þingflokksfundurinn sem Guðfríður Lilja mætti á eftir að kom aftur úr fæðingarorlofi.

Árni Þór Sigurðsson, sem verið hefur starfandi formaður þingflokksins á meðan Guðfríður Lilja hefur verið í fæðingarorlofi, var kjörinn formaður með átta atkvæðum gegn fjórum, en einn skilaði auðu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hófst fundurinn á því að Þuríður Bachman bar upp tillögu þess efnis að Árni Þór, hún og Lilja Rafney Magnúsdóttir yrðu kjörin í stjórn þingflokksins. Lilja Rafney var ekki á fundinum en Þuríður hafði umboð hennar til að greiða atkvæði um tillöguna og var Lilja Rafney einnig í símasambandi við fundinn.

Eftir að tillagan hafði verið borin upp bað Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, um stutt fundarhlé til að ræða við Guðfríði Lilju um tillöguna. Eftir samtal þeirra voru greidd atkvæði og fór atkvæðagreiðslan sem fyrr segir, þannig að Árni Þór var kjörinn formaður.

Heimildir Morgunblaðsins herma að Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason og Ásmundur Einar Daðason hafi verið þeir þingmenn sem studdu Guðfríði Lilju til áframhaldandi setu á formannsstóli, en það hefur ekki fengist staðfest frá þeim sjálfum.

Heimildir herma einnig að Guðfríður Lilja hafi átt að fá formannssæti í utanríkismálanefnd að launum fyrir að samþykkja þessa tilhögun án kosninga, en samkvæmt tillögu Steingríms J. hafi Árni Þór þó átt að hafa forgöngu um Evrópumálin þrátt fyrir það. Málið virðist því hafa verið rætt og undirbúið nokkuð ítarlega fyrir þingflokksfundinn.

Spurð um málið staðfestir Guðfríður Lilja að á fundinum hafi formannsskipti orðið í þingflokknum.  „Þetta kom mér á óvart," segir hún.

Hún hafi verið formaður þingflokks þegar hún fór í fæðingarorlof og öllum venjum samkvæmt og í anda fæðingarorlofslaga, þá eigi manneskja sem fer í fæðingarorlof að ganga aftur inn í sína fyrri stöðu þegar hún kemur aftur til starfa.

„VG er jú hreyfing sem kennir sig við femínisma og kvenfrelsi og fer mikinn oft í þeim efnum. Þetta er ekki í anda fæðingarorlofslaga eða siða, skulum við segja. Þá hefur VG verið tíðrætt um kynjahlutföll í ríkisstjórn, á þingi og í ábyrgðarstörfum, hér er ekki beinlínis verið að bæta stöðu kvenna sem koma úr fæðingarorlofi í því samhengi. Það hefði verið eðlilegra fyrir femínistaflokkinn, fyrst það lá svona á að ég færi frá, að velja sér aðra konu. En veruleikinn er sá að Árni Þór Sigurðsson, sem gegnt hefur þessu embætti í minni fjarveru lagði mikla áherslu á að gegna þessu embætti áfram. Og þingflokkurinn varð við því."

En tengir Guðfríður Lilja þetta við Icesave-kosningu gærdagsins? Guðfríður Lilja lagðist hart gegn fyrsta samningnum og fékk bágt fyrir í sínum flokki.

„Ja, þetta gerist daginn eftir Icesave-kosninguna. Þau verða sjálf að svara því. Það voru margir mjög ósáttir við mína afstöðu í Icesave, að ég skyldi gagnrýna stefnu stjórnvalda, auk þess hef ég alltaf stutt þjóðaratkvæðagreiðslu, en það er annarra að svara fyrir ástæður þess að ég er sett af með þessum hætti.

Hún kveðst einfaldlega hafa svarað flokksfélögum sínum því til að hún ætlaði ekki að fara í samningaviðræður um réttindi sín sem konu sem kemur aftur úr fæðingarorlofi. Ekki þyrfti að semja um eitt né neitt, heldur einfaldlega að kjósa ef fólk vildi það. „Og það var gert," segir Guðfríður Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert