Norrænt ofurtölvuver hér á landi

Samningur um rekstur tölvuversins var kynntur í dag.
Samningur um rekstur tölvuversins var kynntur í dag. mbl.is/Kristinn

Norrænt ofurtölvuver verður starfrækt  hér á landi næstu þrjú árin og mun Háskóli Íslands sjá um rekstur versins.

Háskólinn var meðal þriggja norrænna háskóla sem buðu í rekstur ofurtölvuversins og varð hlutskarpastur. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur stutt verkefnið frá upphafi og kemur að því með fjárframlagi.

Heildarfjárfesting í verkefninu nemur rúmlega einni milljón evra eða um 200 milljónum króna. Að verkefninu standa, auk Háskóla Íslands, þrjár erlendar stofnanir: Danish Center for Scientific Computing, Swedish National Infrastructure for Computing og UNINETT Sigma í Noregi. Þær hafa yfirumsjón með uppbyggingu og rekstri ofurtölvuvera í sínu heimalandi en hafa nú kosið að setja upp sameiginlegt ofurtölvuver hér á landi. Framlag þeirra til verkefnisins er um 750 þúsund evrur, jafnvirði um 120 milljóna króna.

Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og munu háskólar og rannsóknastofnanir á Norðurlöndum samnýta ofurtölvuverið. Verið hýsir reiknifreka tölvuvinnslu til vísindarannsókna fyrir háskólana.

Að sögn menntamálaráðuneytisins felur þátttaka Íslands í verkefninu ótvírætt í sér aukin tækifæri til samstarfs um vísindarannsóknir og nýsköpun og sömuleiðis markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs staðar fyrir orkufreka samhliða tölvuvinnslu. 

Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við gagnaverið Thor Data Center í Hafnarfirði, sem mun hýsa ofurtölvuverið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert